Vilja allir spila fyrir svona gæja (myndskeið)

ÍÞRÓTTIR  | 9. desember | 13:07 
Everton er komið á beinu brautina í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir gríðarlega þýðingarmikinn 3:1-sigur gegn Chelsea á Goodison Park í Liverpool um síðustu helgi.

Everton er komið á beinu brautina í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir gríðarlega þýðingarmikinn 3:1-sigur gegn Chelsea á Goodison Park í Liverpool um síðustu helgi. Þetta var fyrsti leikur liðsins undir stjórn Duncan Ferguson sem tók tímabundið við liðinu eftir að Portúgalinn Marco Silva var látinn taka pokann sinn í síðustu viku.

Everton hefur gengið skelfilega á þessari leiktíð og var liðið í fallsæti fyrir leikinn gegn Chelsea. Það var hins vegar allt annað að sjá liðið gegn Chelsea þar sem baráttugleði og vilji einkenndi liðið. Ferguson er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Everton eftir að hafa spilað með liðinu í fjölda ára og Skotinn virðist ná vel til leikmanna liðsins.

„Það vilja allir spila fyrir svona gæja,“ sagði Tómas Þór Þórðarson í Vellinum á Síminn Sport í gær og Eiður Smári Guðjohnsen tók í sama streng. „Hann var ekkert alltaf upp á tíu og fór meðal annars í fangelsi og eitthvað á sínum tíma. Hann var líka duglegur að ná sér í rauð spjöld en það sem gerir hann að þeirri goðsögn sem hann er er heiðarleikinn inni á vellinum.“

„Það var engin tækling sem hann hoppaði upp úr og það var enginn skallabolti sem hann hoppaði ekki upp í. Það vantaði aldrei prósentu upp á ástríðuna hjá honum og þess vegna held ég að fólkið í Liverpool dáist að honum og þyki svona vænt um hann sem fyrrverandi leikmann félagsins,“ bætti Eiður Smári við.

Þættir