Borgarstjóri vill í samstarf við Veðurstofuna

ÍÞRÓTTIR  | 23. janúar | 17:30 
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, setti Reykjavíkurleikana í Laugardalshöll í dag. í ávarpi sínu óskaði hann þess að komast í samstarf við Veðurstofuna til að lýsa yfir afnámi gulra veðurviðvaranna svo Reykjavíkurleikarnir geti fengið sviðið næstu daga.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, setti Reykjavíkurleikana í Laugardalshöll í dag. í ávarpi sínu óskaði hann þess að komast í samstarf við Veðurstofuna til að lýsa yfir afnámi gulra veðurviðvaranna svo Reykjavíkurleikarnir geti fengið sviðið næstu daga.

Gústaf Adolf Hjaltason, forseti undirbúningsnefndar leikanna, tók einnig til máls, fór yfir dagskrána sem framundan er og nýjungarnar í ár. Að setningarathöfn lokinni fengu viðstaddir að prófa pílukast og kynna sér klifur og Enduro-hjólreiðar sem eru nýjar greinar á leikunum í ár. Einnig var hægt að reyna við heimsmet Júlíans Jóhanns í réttstöðulyftu. Aðrar nýjar greinar eru crossfit, akstursíþróttir og þríþraut.

Í ár fara Reykjavíkurleikarnir fram í 13. sinn og hafa keppnisgreinarnar aldrei verið fleiri en nú eða 23 talsins. Reiknað er með þátttöku hátt í 1.000 erlendra gesta frá meira en 40 mismunandi löndum. Öll löndin á Norðurlöndum taka þátt og mörg lönd annars staðar í Evrópu en einnig er von á keppendum sem koma lengra að eins og frá Indónesíu, Jamaíka og Nýja-Sjálandi.

Keppnin á Reykjavíkurleikunum skiptist niður á tvær keppnishelgar og verður keppt í 12 greinum núna um helgina og 12 greinum um næstu helgi. Dagskrá má finna á vef leikanna rig.is.

Sú nýjung verður á Reykjavíkurleikunum í ár að boðið verður upp á svokallað Fun Park í anddyri Laugardalshallar þar sem gestir og gangandi geta fengið að reyna fyrir sér í ýmsum íþróttagreinum. Einnig verður myndabás og fleira skemmtilegt í gangi. Fun Park verður opið klukkan 11.30-15.00 laugardag og sunnudag báðar helgarnar og er frítt inn. Miðasala á aðra viðburði fer fram á tix.is

Tveir viðburðir voru á dagskrá leikanna í dag, ráðstefna og badminton. Ráðstefna um jafnrétti barna og unglinga í íþróttum fór fram í Laugardalshöll klukkan 14-16 í dag. Fullbókað var á ráðstefnuna en sýnt var beint á vefnum svo allir áhugasamir gætu fylgst með. Badmintonkeppni Reykjavíkurleikanna hófst í morgun klukkan 9.00 í TBR-húsunum við Gnoðarvog og stendur alla helgina. Keppendur í badminton eru rúmlega 150 talsins þar af 114 erlendir af 32 mismunandi þjóðernum. Leikjadagskrá má finna hér.

Þættir