Tveir farþegar Diamond Princess látnir

ERLENT  | 21. febrúar | 8:25 
Ótti alþjóðasamfélagsins hefur aukist til muna eftir að greint var frá því að tveir farþegar um borð í skemmtiferðaskipinu Diamond Princess hefðu látist í morgun. Fjölmörg smit hafa verið tilkynnt í Suður-Kóreu í dag.

Kínversk yfirvöld segja að mjög hafi dregið úr nýjum smitum kórónuveirunnar í landinu og að þetta sé merki um að þau hafi náð stjórn á farsóttinni. Aftur á móti hefur ótti alþjóðasamfélagsins aukist til muna eftir að greint var frá því að tveir farþegar um borð í skemmtiferðaskipinu Diamond Princess hefðu látist í morgun. Fjölmörg smit hafa verið tilkynnt í Suður-Kóreu í dag.

Alls eru 2.118 látnir úr COVID-19 veirunni í Kína en 114 ný dauðsföll hafa verið tilkynnt síðasta sólarhringinn. Aftur á móti hefur fækkað mjög í hópi nýrra smita en yfir 74 þúsund hafa smitast í Kína. Hundruð hafa greinst með COVID-19 veiruna í 25 löndum. Tvö dauðsföll voru tilkynnt í Íran í gær en það eru fyrstu dauðsföllin af völdum veirunnar í Mið-Austurlöndum. 

Í Japan létust karl og kona á níræðisaldri en þau höfðu verið farþegar á Diamond Princess. Bæði voru með undirliggjandi sjúkdóma en yfir 620 manns sem voru um borð í skipinu eru á sjúkrahúsum í Japan vegna veirunnar. 

Í borginni Daegu í Suður-Kóreu var tilkynnt um 39 ný smit í dag. Alls hafa 82 greinst með veiruna í borginni. Helming smita má rekja til rúmlega sextugrar konu sem er félagi í Shincheonji-kirkju Jesú í borginni. Hún fékk hita 10. febrúar en neitaði í tvígang að gangast undir rannsókn um hvort hún væri smituð á grundvelli þess að hún hefði ekki ferðast til útlanda nýverið. Hún mætti á að minnsta kosti fjóra viðburði innan trúarsafnaðarins áður en hún samþykkti loks sýnatöku.

Þættir