Þrír farþegar Diamond Princess látnir

ERLENT  | 24. febrúar | 7:05 
Þrír farþegar skemmtiferðaskipsins Diamond Princess eru látnir úr kórónuveirunni en skipið var í sóttkví fyrir utan japönsku borgina Yokohama. 23 útlendingar, sem fengu að fara frá borði í síðustu viku hafa greinst smitaðir af COVID-19-veirunni frá því þeir komu í land.

Þrír farþegar skemmtiferðaskipsins Diamond Princess eru látnir úr kórónuveirunni en skipið var í sóttkví fyrir utan japönsku borgina Yokohama. 23 útlendingar, sem fengu að fara frá borði í síðustu viku, hafa greinst smitaðir af COVID-19-veirunni frá því þeir komu í land. 

Japönsk yfirvöld hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að sóttkvíin sem skipið var í hafði lítil áhrif. Farþegarnir sem hafa greinst smitaðir fengu allir að fara frá borði þar sem þeir höfðu fengið heilbrigðisvottorð frá yfirvöldum um að þeir væru ekki með veiruna.

Yfir 2.500 eru látnir úr kórónuveirunni á meginlandi Kína og yfir 77 þúsund eru smitaðir.

Tæplega eitt þúsund farþegar fengu að fara frá borði eftir sýnatöku sem benti til að þeir væru ekki smitaðir. En nú efast menn mjög um gildi rannsóknanna. Meðal þeirra sem hafa greinst smitaðir er kona um sextug. Hún kom til síns heima, Tochigi í norðurhluta Japans, með lest eftir að hafa farið frá borði á miðvikudag. Eftir heimkomuna fékk hún hita og á laugardag greindist hún smituð. Þeir sem hafa farið frá borði hafa verið beðnir um að takmarka ferðalög og ganga með grímur fyrir andlitinu á almannafæri. 

Enn eru um eitt þúsund um borð í skemmtiferðaskipinu, þar á meðal farþegar sem eru að bíða eftir flugi til síns heima. Eins áhöfn skipsins. Yfir 600 smituðust af kórónuveirunni um borð í skipinu.

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa sett 380 útlendinga í sóttkví til þess að koma í veg fyrir að COVID-19-veiran breiðist þar út. Flestir útlendinganna eru diplómatar sem eru staðsettir í höfuðborg landsins, Pyongyang. Um 200 útlendingar hafa nú þegar þurft að halda sig heima í Norður-Kóreu í mánuð en nú hefur sóttkví þeirra verið framlengd. Engin staðfest tilvik COVID-19 hafa greinst þar. 

Í Suður-Kóreu hafa sjö látist og 763 smitast. Um 7.700 hermenn hafa verið settir í sóttkví eftir að 11 hermenn greindust smitaðir. Alls hafa smit greinst í 29 löndum. Á Ítalíu eru staðfest smit 152 talsins og hvergi annars staðar í Evrópu hafa jafn margir smitast. Um 50 þúsund manns eru í sóttkví þar í landi. Í Íran hafa 43 greinst smitaðir og tólf látist. Fyrstu staðfestu smitin í Kúveit og Barein voru tilkynnt í dag.

 

Þættir