Ný smit í Evrópu öll rakin til Ítalíu

ERLENT  | 26. febrúar | 6:14 
Öll ný smit kórónuveirunnar í Evrópu undanfarna daga er hægt að rekja til Ítalíu. Þar hafa yfir 300 smitast og 11 látist. Aftur á móti fækkar dauðsföllum í Kína en síðasta sólarhringinn hafa 52 látist eða alls 2.715 frá því faraldurinn braust út í kringum áramótin.

Öll ný smit kórónuveirunnar í Evrópu undanfarna daga er hægt að rekja til Ítalíu. Þar hafa yfir 300 smitast og 11 látist. Aftur á móti fækkar dauðsföllum í Kína en síðasta sólarhringinn hafa 52 látist eða alls 2.715 frá því faraldurinn braust út í kringum áramótin.

Í gær var greint frá því að kórónuveiran væri komin til Austurríkis, Króatíu og Sviss. Eins til Alsír. Í öllum tilvikum er smitið rakið til Ítalíu. Fyrsta tilfelli kórónuveirunnar í Rómönsku-Ameríku var greint í gær en það var Brasilíubúi sem var nýkominn frá Ítalíu. 

https://www.mbl.is/frettir/skyringarmynd/italia_koronuvirus/

Allir þeir sem létust í Kína síðasta sólarhringinn voru í Hubei-héraði og eins var tilkynnt um 401 nýtt smit þar á sama tíma. Aðeins fimm önnur smit voru tilkynnt á meginlandi Kína síðasta sólarhringinn samkvæmt upplýsingum frá kínverskum yfirvöldum. Alls hafa yfir 78 þúsund smitast af COVID-19-veirunni í Kína. Í Suður-Kóreu hafa 11 látist og 1.146 smitast. 

 

Forsætisráðherra Ítalíu, Giuseppe Conte, segir að viðbúnaðurinn þar í landi, en 11 bæir eru í sóttkví, geti varað vikum saman. Nágrannaríki Ítalíu segja að ekki sé rétt að loka landamærunum. 

Heilbrigðisráðherrar Frakklands, Þýskalands og Ítalíu auk framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins funduðu í gær og samþykktu að halda landamærunum opnum á sama tíma og ný tilvik koma upp víðar í Evrópu og innan Ítalíu.

„Við erum að ræða um veiru sem ekki virðir landamæri,“ segir heilbrigðisráðherra Ítalíu, Roberto Speranza, að því er segir í frétt BBC. Þýskur starfsbróðir hans, Jens Spahn, segir að nágrannaríki Ítalíu taki ástandið alvarlega og segir að það geti versnað enn frekar áður en það batnar.

Í Bretlandi hafa skólabörn sem eru að koma úr skíðaferðum í Norður-Ítalíu verið send í sóttkví á heimilum sínum og yfirvöld í Bretlandi eru að gefa út nýjar viðmiðunarreglur fyrir ferðamenn. Ekki stendur til að stöðva flugferðir til Ítalíu en á hverju ári fara um þrjár milljónir Breta þangað. „Ef horft er til Ítalíu kemur í ljós að þrátt fyrir að hafa stöðvað allt flug frá Kína þá er Ítalía ríkið sem hefur orðið verst úti í Evrópu,“ segir Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands.

 

Í Austurríki greindist ungt ítalskt par, sem býr í Innsbruck, með COVID-19 veiruna. Annað þeirra starfar á hóteli og hefur hótelið verið sett í sóttkví og eins heimili þeirra.

Í Sviss greindist maður á sjötugsaldri sem er búsettur í bænum Ticino, á landamærum Ítalíu, með veiruna en hann smitaðist í Mílanó 15. febrúar. Hann er í einangrun.

Í Króatíu greindist maður sem var nýkominn frá Ítalíu í gær og er þetta fyrsta staðfesta tilvik veirunnar á Balkanskaganum.

 

Á Tenerife eru ítölsk hjón í einangrun en þau eru bæði smituð af veirunni. Um eitt þúsund gestir hótelsins sem þau gistu á eru í einangrun, þar á meðal sjö Íslendingar.

Kona í Barcelona greindist einnig með veiruna í gær en hún var nýkomin frá Norður-Ítalíu.

Í Frakklandi og Þýskalandi hafa einnig komið upp ný tilvik veirunnar sem öll má rekja til norðurhluta Ítalíu.

Frétt BBC

Þættir