Sameinast um neyðarflutninga

ERLENT  | 27. mars | 10:58 
Erlendar ríkisstjórnir hafa sameinast um að reyna að koma ferðamönnum frá ríkjum Suður-Asíu en talið er að tugþúsundir ferðamanna séu fastir þar, allt frá grunnbúðum Everest til strandhótela í Sri Lanka, vegna kórónuveirunnar.

Erlendar ríkisstjórnir hafa sameinast um að reyna að koma ferðamönnum frá ríkjum Suður-Asíu en talið er að tugþúsundir ferðamanna séu fastir þar, allt frá grunnbúðum Everest til strandhótela í Sri Lanka, vegna kórónuveirunnar. 

 

Farþegaþota var send frá Berlín til að sækja 304 farþega til Katmandú í dag en alls á að ferja yfir tíu þúsund manns frá Nepal á næstunni. Tæplega 17 þúsund ferðamenn eru fastir í Sri Lanka og tugþúsundir ferðamanna og útlendinga eru á Indlandi, samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum í ríkjunum tveimur. Ríkin hafa dregið verulega úr eða bannað alfarið millilandaflug undanfarna viku í þeirri von að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. 

Flugvélin sem fór frá Katmandú í morgun var með Þjóðverja og fólk frá öðrum Evrópuríkjum að sögn Rajan Pokhrel, framkvæmdastjóra flugmálayfirvalda í Nepal. „Önnur ríki eru að veita okkur ráðleggingar um hvernig hægt sé að koma þegnum þeirra úr landi,“ segir hann í viðtali við AFP-fréttastofuna. 

 

Önnur flugvél verður send á morgun frá Þýskalandi og eins er ástralska sendiráðið í Nepal í viðræðum um að fá að senda sérstaka flugvél til Nepal eftir ferðamönnum. Önnur lönd, þar á meðal Bandaríkin, eru að reyna að koma á sameiginlegum flugferðum til Asíu eftir fólki. 

Stjórnvöld í Nepal áætla að um 10 þúsund manns, frá Evrópu, Ástralíu, Indlandi, Suður-Kóreu og Bandaríkjunum, séu á fjarlægum stöðum í ríkinu en allt millilandaflug til ríkisins í Himalaja-fjöllunum var aflagt um síðustu helgi. Meðal annars bíða um 200 fjallgöngumenn í grunnbúðum Everest. 

Ferðamálaráð Nepals segir að 137 einstaklingar hafi verið sóttir á gönguleiðum uppi í fjöllunum í gær og fluttir til Katmandú. 

Frakkland og fleiri ríkisstjórnir hafa skipulagt innlandsflug fyrir þegna sína frá afskekktum stöðum til höfuðborgarinnar,Katmandú. Einhver hótel hafa boðið ferðalöngum upp á fría gistingu og mat. Ríkisstjórnir Frakklands og Þýskalands eru einnig í samningaviðræðum um að flytja þegna sína frá Indlandi. 

 

Yfirvöld í Sri Lanka hafa heimilað tæplega 17 þúsund ferðamönnum að nota farmiða sem áttu að gilda í flug sem hafa verið felld niður til að koma þeim úr landi en útgöngubann ríkir í landinu. Margir þeirra eru fastir í strandbæjum langt frá flugvellinum í Colombo. Meðal annars eru þar um 2.500 Indverjar, rúmlega 2 þúsund Kínverjar og Rússar. Um 1.700 Þjóðverjar og 1.400 Bretar, auk nokkur hundruð Kanadabúa og Frakka.  

 

Á Maldív-eyjum í Indlandshafi hefur verið lokað fyrir komu ferðamanna og öllum ferðaþjónustufyrirtækjum fyrirskipað að tæma allar 135 eyjarnar af ferðamönnum innan tveggja vikna. Alls hafa greinst 13 kórónuveirusmit á eyjaklasanum og eru þeir smituðu allt útlendingar. Alls eru íbúar Maldív-eyja 340 þúsund talsins. 

 

Þættir