„Við ætlum að komast í gegnum þetta“

INNLENT  | 29. apríl | 16:43 
„Við ákváðum að taka Pollýönnu á þetta innan um þessar hræðilegu fréttir sem eru að berast af kollegum okkar,“ segir Hallgrímur Kristinsson, framkvæmdastjóri Raufarhóls sem sér um ferðir í Raufarhólshelli í Ölfusi, sem er einn lengsti hraunhellir landsins. Lokað var fyrir allar ferðir í hellinn 24. mars en fyrirtækið tilkynnti í dag að ferðir hefjast að nýju föstudaginn 8. maí.

„Við ákváðum að taka Pollýönnu á þetta innan um þessar hræðilegu fréttir sem eru að berast af kollegum okkar,“ segir Hallgrímur Kristinsson, framkvæmdastjóri Raufarhóls sem sér um ferðir í Raufarhólshelli í Ölfusi, sem er einn lengsti hraunhellir landsins. 

Lokað var fyrir allar ferðir í hellinn 24. mars en fyrirtækið tilkynnti í dag að ferðir hefjast að nýju föstudaginn 8. maí. Meðal þeirra síðustu sem heimsóttu hellinn fyrir lokun voru félagar í karlakórnum Esju og í myndskeiðinu hér að ofan má heyra undurfagran flutning þeirra í hellinum á lagi Jóns Nordal, Smávinir fagrir, við ljóð Jónasar Hallgrímssonar. 

Hallgrímur segir að það hafi verið af ásettu ráði sem hann ákvað að tilkynna opnunina í dag, í skugga fjöldauppsagna í ferðaþjónustu. „Það verður einhver jákvæðni að koma. Við ákváðum að loka af því að það var ekki ætlast til að fólk væri að ferðast. Nú losnar aðeins um 4. maí og þá teljum við óhætt að fara að opna.“

Frétt mbl.is

 

Fyrirmælum almannavarna fylgt í einu og öllu

Opnunin verður með takmörkunum þó. Til að byrja með verður opið um helgar en Hallgrímur vonast til að geta boðið upp á daglegar ferðir frá og með 1. júní. 

Hver ferð tekur um klukkutíma og alla jafna er farið með hópa inn í hellinn á klukkutíma fresti. Nú verða þær breytingar gerðar á, að minnsta kosti til að byrja með, að farið verður á tveggja tíma fresti til að koma í veg fyrir að hópar mætist við inngang hellisins. Þá verður fækkað úr 30 í 15 í hverri ferð. 

„Þá eru kannski þrjár fjölskyldur í hverri ferð og þá er auðvelt að virða tveggja metra regluna,“ segir Hallgrímur og ítrekar að fyrirmælum almannavarna verð fylgt í einu og öllu. 

 

Stórkostlegt um að litast eftir veturinn

Hellirinn kemur vel undan vetri en áhrifa hans gætir enn. „Hellirinn er stórkostlegur núna. Það var mikið vetrarríki í vetur þegar snjóaði mikið og það skilaði sér inn í hellinn þar sem meðal annars má sjá grýlukerti vaxa upp úr jörðinni, það er alveg ofboðslega fallegt,“ segir Hallgrímur, sem var einmitt í hellinum síðast í morgun. 

 

Til að koma til móts við landsmenn sem eru hvattir til að ferðast innanlands í sumar verður boðið upp á 30% afslátt á ferðum. Sem fyrr fá börn fría skoðunarferð og unglingar greiða hálft gjald. Hallgrímur segir að fyrirtækinu hafi borist töluvert af fyrirspurnum um ferðir. „Ég finn mikla þörf. Fólk er búið að vera mikið heima og vill komast út og að fjölskyldan geri eitthvað saman. Við teljum að með því að hafa smærri hópa og gott bil á milli brottfara geti fólk verið öruggt með að koma til okkar.“

Erlendir ferðamenn 95% gesta í fyrra

Um 65 þúsund manns heimsóttu hellinn í fyrra, langflestir erlendir ferðamenn eða um 95% að mati Hallgríms. Hlutfallið mun að öllum líkindum snúast alfarið við og því fylgja ýmsar breytingar. Flestir þekkja fyrirtækið og hellinn undir heitinu The Lava Tunnel en nú er Íslendingum bent á heimasíðuna Raufarhólshellir.is til að leita upplýsinga og bóka ferðir. 

Hallgrímur segir að fyrirtækið hafi ekki sett sér nein markmið fyrir sumarið, hvað þá árið, það sé ekki hægt eins og staðan er núna. „Við búumst ekki við neinum tölum í líkingu við þær sem við værum annars að fá í venjulegu árferði. En við ætlum að gera gott úr stöðunni og vonumst til að þetta gefi góða raun.“

Starfsmenn Raufarhólshellis eru á hlutabótaleið stjórnvalda og verða áfram þar til annað kemur í ljós. Stöðugildin eru 13 en 25 eru á launaskrá. „Samdrátturinn í apríl var 100% og við vitum í rauninni ekki hvað við erum að fara út í en við erum í þeirri stöðu að ef við finnum að við erum að fá umferð er ekki svo erfitt fyrir okkur að setja fólk í meiri vinnu, sem er jákvætt.“

„Við ætlum að komast í gegnum þetta, en við stóðum kannski þokkalega fyrir. Við ætlum að þjónusta Íslendinga í sumar og svo verðum við að sjá hvað haustið og næsti vetur ber með sér.“

 

Þættir