Í messu og út að borða

ERLENT  | 19. maí | 7:07 
Hægt verður að sækja veitingastaði og kirkjur á Ítalíu frá og með deginum í dag en víða í Evrópu er verið að aflétta aðgerðum vegna kórónuveirunnar.

Hægt verður að sækja veitingastaði og kirkjur á Ítalíu frá og með deginum í dag en víða í Evrópu er verið að aflétta aðgerðum vegna kórónuveirunnar. Á sama tíma og farsóttin er í rénum í Evrópu fjölgar tilfellum í Afríku og Suður-Ameríku. Yfir 4,7 milljónir jarðarbúa hafa greinst með staðfest smit frá því fyrstu smitin komu upp í kínversku borginni Wuhan í desember. 

 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) varar við því að of hratt sé farið í að aflétta hömlum á meðan ekki er til bóluefni við veirunni. Mikil hætta sé á annarri  bylgju sýkinga. WHO stendur fyrir allsherjarheilbrigðisþingi síðar í vikunni þar sem fjallað verður um hvernig hægt er að takast á við farsóttina. Að sjálfsögðu er þingið rafrænt enda flugsamgöngur nánast lamaðar um heim allan. 

Frans páfi fagnar því að fólk geti loks sameinast en hann flutti messu rafrænt frá Páfagarði í gær. Péturskirkjan er meðal þeirra kirkna sem verður opnuð í dag eftir tveggja mánaða lokun en Páfagarður hefur fylgt samkomubanni ítalskra stjórnvalda í hvívetna þrátt fyrir að vera sérríki í hjarta Rómar. 

 

Meðal þess sem verður opnað á Ítalíu í dag eru veitingastaðir, barir, kaffihús, hárgreiðslustofur og verslanir. Líkamsræktarstöðvar, sundlaugar, kvikmyndahús og leikhús verða síðan opnuð 25. maí á Ítalíu.

Á Spáni verður einnig um frekari afléttingu hafta að ræða í dag. Um helgina nýttu margir Evrópubúar sér aukið frjálsræði með því að skreppa á ströndina til að mynda í Frakklandi, Grikklandi og Ítalíu og Bretar skelltu sér í lautarferð í almenningsgörðum. 

 

 

Þættir