Framvísi heilbrigðisvottorðum

ERLENT  | 2. júní | 9:29 
Á sama tíma og aðrir hlutar heimsins eru á leið til eðlilegs lífs að nýju fjölgar nýjum smitum og um leið dauðsföllum af völdum kórónuveirunnar í Rómönsku-Ameríku. Alþjóðaflugmálastofnunin hefur gefið út heilbrigðisleiðbeiningar fyrir flugfélög.

Á sama tíma og aðrir hlutar heimsins eru á leið til eðlilegs lífs að nýju fjölgar nýjum smitum og um leið dauðföllum af völdum kórónuveirunnar í Rómönsku-Ameríku. Alls eru yfir 375 þúsund látnir af völdum veirunnar í heiminum.

Heilbrigðiskerfi ríkja Suður- og Mið-Ameríku eru víða komin að fótum fram vegna COVID-19 og samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) eru tæplega 30 þúsund látnir af hennar völdum í Brasilíu. 

 

Systurstofnun WHO, Alþjóðaflugmálastofnunin (International Civil Aviation Organization) hefur gefið út leiðbeiningar til flugfélaga sem eru að hefja áætlunarflug að nýju en nauðsynlegt er að allir framvísi heilbrigðisvottorði á flugvöllum og fari í hitamælingu áður en farið er um borð.

Jafnframt skuli flugáhafnir bera grímur sem og farþegar og þeir sem innrita sig í flug á netinu fái forgang á flugvöllum. Eins skal gætt að því að halda líkamlegri snertingu í lágmarki við öryggiseftirlit sem og í biðröðum. 

Mælt er með rafrænum flugmiðum og annarri rafrænni þjónustu, svo sem andlits- eða augnskönnum. Farþegar eru hvattir til þess að ferðast eins létt og mögulegt er og helst með aðeins eina litla tösku í handfarangri. Ekki verður lengur í boði að fá dagblöð um borð né heldur tímarit og tollfrjáls verslun um borð í flugvélum verður mjög takmörkuð.

 

Farþegar um borð eru beðnir um að halda sig í sætum sínum og biðraðir við salerni flugvéla eru bannaðar. Óheimilt er að fara á önnur salerni en þau sem þér er úthlutað.

Í flestum ríkjum Evrópu er skólastarf hafið að nýju og eins eru sundlaugar, barir og ferðamannastaðir opnir þrátt fyrir hættuna á annarri bylgju sýkinga. Alls er vitað um að 6,2 milljónir hafi greinst með veiruna frá því í desember. 

 

Fjögur af þeim tíu ríkjum þar sem smitin voru flest í gær eru í Rómönsku-Ameríku að sögn stjórnanda neyðaráætlunar WHO, Michael Ryan. Flest eru ný smit í Brasilíu, Perú, Chile og Mexíkó en þeim fjölgar einnig hratt í Argentínu, Bólivíu, Kólumbíu og Haítí. Yfir ein milljón smita hafa greinst þar og rúmlega 50 þúsund hafa látist. Yfir helmingur smita er í Brasilíu og tæplega 60% dauðsfalla. 

Borgarstjórinn í Rio de Janeiro segir að þrátt fyrir farsóttina verði byrjað að draga úr höftum í borginni í dag. Til að mynda verður heimilt að sækja vinnu og eins verða vatnaíþróttastaðir opnaðir að nýju.

Svipað er uppi á teningnum í Mexíkó og varar Ryan við því að staðan verði áfram erfið í Rómönsku-Ameríku næstu vikur. Hann segist ekki hafa trú á því að faraldurinn hafi náð hámarki og á þessari stundu sé ómögulegt að segja hvenær það gerist. 

 

Búið er að opna bari í Finnlandi og Noregi en áfram eru reglur í gildi varðandi fjölda og opnunartíma. Börn í Bretlandi og Grikklandi eru komin í skólann að nýju en í gær létust 111 úr veirunni í Bretlandi. Þeir hafa ekki verið jafn fáir á einum sólarhring síðan útgöngubann tók þar gildi 23. mars. 

Í London hefur Camden-markaðurinn verið opnaður að nýju eftir að hafa verið lokaður í tíu vikur. „Við erum farin að sjá ljósið við enda ganganna,“ segir Mario Warner, verslunareigandi í nágrenni markaðarins, í viðtali við AFP-fréttastofnuna en verslanir voru opnaðar fyrir tveimur vikum. 

Í Grikklandi hafa einhver hótel, skólar, sundlaugar og húðflúrstofur opnað að nýju og eins er hringleikahúsið í Róm opið fyrir Ítala. 

 

Í gær bárust góðar fréttir frá Spáni þar sem engin dauðsföll voru skráð af völdum kórónuveirunnar síðasta sólarhringinn en það hefur ekki gerst frá 3. mars. Aftur á móti lést 31 í Frakklandi sama sólarhring. Þar í landi er búið að opna kaffihús, veitingastaði og bístró sem hafa verið lokuð frá því um miðjan mars. Sennilega hefur þó einhverjum Frökkum svelgst á kaffinu í morgun er fjármálaráðherra landsins, Bruno Le Maire, greindi frá því að allt benti til 11% samdráttar í Frakklandi í ár. 

 

Í Austur-Asíu eru fjöldasamkomur enn bannaðar þrátt fyrir að lífið sé smátt og smátt að færast í eðlilegt horf. Í Hong Kong verður til að mynda bannað að minnast þeirra sem drepnir voru á Tiananmen-torgi (Torg hins himneska friðar) 4. júní 1989 í aðgerðum stjórnvalda gegn námsmönnum, vegna COVID-19, en íbúar Hong Kong hafa minnst blóðbaðsins á hverju ári með minningarsamkomu.

Frétt mbl.is

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, gagnrýndi í dag þá sem tóku þátt í Black Lives Matter-mótmælum þar í landi um helgina fyrir að virða ekki fjarlægðarreglur á sama tíma og baráttunni við veiruna sé að ljúka.

 

Á sama tíma bárust alvarlegar fréttir frá Bangladess þar sem fyrsti íbúinn í flóttamannabúðum ró­hingja er látinn af völdum COVID-19. Maðurinn er einn 29 flóttamanna sem greindust með veiruna í búðunum en alls er tæplega ein milljón flóttamanna í COX-búðunum. Maðurinn var 71 árs gamall. 

 

Þættir