Ef þær eru, þá gera þær svo lítið

INNLENT  | 9. september | 16:28 
„Ef þær eru, þá eru þær að gera svo lítið,“ segir Heiða Björk, nemandi í 9. bekk í Vogaskóla, um hlut kvenna í kvikmyndum. Esja skólasystir hennar tekur undir þetta: „Annað hvort eru þær að tala um menn, eða þá er verið að sýna líkamann þeirra.“ Í vikunni hafa stelpurnar kynnt sér kvikmyndagerð.

„Ef þær eru, þá eru þær að gera svo lítið,“ segir Heiða Björk, nemandi í 9. bekk í Vogaskóla, um hlut kvenna í kvikmyndum. Esja skólasystir hennar tekur undir þetta: „Annað hvort eru þær að tala um menn, eða þá er verið að sýna líkamann þeirra.“ Í vikunni hafa stelpurnar kynnt sér kvikmyndagerð.  

Í dag kíkti mbl.is á stelpurnar í Norræna húsinu þar sem þær fengu leiðsögn í undirstöðuatriðunum í klippingu frá Valdísi Óskarsdóttur sem er þekktust fyrir klippingu sína á myndinni Eternal Sunshine of the Spotless Mind.

Í myndskeiðinu er rætt við þær Heiðu Björk, Esju og Freyju Rún sem eru áhugasamar um kvkmyndagerð og hafa skoðanir á málunum. Þegar námskeiðinu lýkur í lok vikunnar tekur við gerð á stuttmynd sem verður svo sýnd á stóra tjaldinu á RIFF.

Námskeiðið nefnist  Stelpur filma! og er nú haldið í þriðja sinn. Að verkefninu koma reyndir handritshöfundar og kvikmyndagerðarmenn og það er unnið í samstarfi RIFF, Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar, Mixtúru og Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

 

Barnamenningarsjóður styrkir verkefnið en á meðal kennara eru Margrét Örnólfsdóttir handritshöfundur, Nanna Kristín Magnúsdóttir leikkona m.m., Valdís Óskarsdóttir klippari, Erla Stefánsdóttir kvikmyndagerðarkona, Baltasar Kormákur kvikmyndaleikstjóri og Margrét Jónasar framleiðandi. 

Hugmyndin er að rétta af kynjahallann í kvikmyndagerð á Íslandi, en margir samverkandi þættir gera það að verkum að stelpur eru ólíklegri til þess að prófa sig áfram í greininni og láta rödd sína heyrast. Aðstandendur vilja leiðrétta þennan kynjahalla með því að bjóða upp á rými þar sem stelpur fá næði til þess að þroska sína hæfileika og mynda tengsl við kvenkyns fyrirmyndir. 

Þættir