Minntust hryðjuverkanna 11. september

ERLENT  | 12. september | 21:22 
Nítján ár eru í dag liðin frá hryðjuverkaárásunum í Bandaríkjunum, 11. september 2001. Sjaldséða samstöðu mátti sjá hjá stjórnmálamönnum beggja stóru flokkanna í Bandaríkjunum þegar þeir minntust fórnarlamba voðaverkanna.

Nítján ár eru í dag liðin frá hryðjuverkaárásunum í Bandaríkjunum, 11. september 2001. Sjaldséða samstöðu mátti sjá hjá stjórnmálamönnum beggja stóru flokkanna í Bandaríkjunum þegar þeir minntust fórnarlamba voðaverkanna.

Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata, og Mike Pence varaforseti voru báðir viðstaddir minningarathöfn á Ground Zero-minningarreitnum þar sem tvíburaturnarnir stóðu áður. Því næst hélt Biden til Shanksville í Pennsylvaníu en þar er minnisvarði um farþega í Flugi 93, vélinni sem hryðjuverkamenn hugðust beina að þinghúsinu í Washington áður en farþegar gerðu uppreisn með þeim afleiðingum að hún hrapaði til jarðar í Pennsylvaníu.

 

 

Trump var einnig í Shanksville fyrr um daginn, ásamt eiginkonu sinni Melaniu Trump. „Til allra ættingja farþega um borð í Flugi 93: Í dag slær hvert hjarta Ameríku fyrir ykkur,“ sagði Trump. „Sársauki ykkar er sorg allrar þjóðarinnar og minningin um ástvini ykkar verður Bandaríkjunum innblástur um alla tíð,“ sagði forsetinn. Hann sagði að hetjurnar úr Flugi 93, sem gerðu uppreisn gegn hryðjuverkamönnunum, yrðu ævarandi minning um að hver sem hættan er muni Bandaríkin alltaf rísa upp og berjast.

Þótt forsetaframbjóðendurnir hafi báðir forðast kosningabaráttu í dag, er ljóst að allra augu voru á þeim. Pennsylvanía er eitt þeirra svonefndu sveifluríkja sem viðbúið er að ráði úrslitum í forsetakosningunum í nóvember. Þar fór Donald Trump með nauman sigur af hólmi í kosningunum 2016, en kannanir nú benda til þess að Biden hafi forskot.

Biden sagði fréttamönnum í morgun að hann myndi ekki nota daginn í annað en að minnast fórnarlamba hryðjuverkanna. Framboð hans hefði tekið niður öll auglýsingaskilti og myndi ekki auglýsa í sjónvarpi eða útvarpi í dag.

Þættir