Hluti af íbúum Madrídar í útgöngubanni

ERLENT  | 21. september | 11:27 
Útgöngubann hefur tekið gildi í Madríd, höfuðborg Spánar, og nágrenni hennar.

Útgöngubann hefur tekið gildi í Madríd, höfuðborg Spánar, og nágrenni hennar.

Bannið mun standa yfir í tvær vikur og hefur áhrif á 850 þúsund manns sem flestir eru tekjulágir og búa í þéttbýlum hverfum í suðurhluta borgarinnar. Þetta eru um 13 prósent þeirra 6,6 milljóna manna sem búa í Madríd og í kringum hana. 

Fólk má eingöngu ferðast ef nauðsyn krefur, þar á meðal til að fara í vinnuna, sækja sér læknisþjónustu eða fara með börnin í skólann.

Eins og í mörgum öðrum Evrópuríkjum hefur kórónuveiran sótt í sig veðrið á Spáni og hefur Madríd komið þar verst út.

Hundruð manna söfnuðust saman í gær og mótmæltu útgöngubanninu á götum úti. Á mótmælaspjöldunum stóð: „Nei við stéttbundnu útgöngubanni“ og „Þeir eru að eyðileggja hverfin okkar og núna eru þeir að loka okkur inni“.

 

Fimm sinnum fleiri smit

Spánn hefur orðið hvað verst úti í glímunni við kórónuveiruna. Þarlend stjórnvöld telja að aðgerðirnar núna séu nauðsynlegar vegna þess að smitin sem hafa komið upp í umræddum hverfum hafa verið 1.000 á hverja 100 þúsund íbúa, sem er fimm sinnum meira en að meðaltali í landinu og jafnframt það hæsta innan ríkja Evrópusambandsins. Ekki er talin þörf á útgöngubanni um allt landið.

Yfir 30 þúsund manns hafa látist af völdum veirunnar á Spáni, sem er eitt það mesta í Evrópu, og um 600 þúsund smit hafa verið staðfest.

Næstum 31 milljón manns hefur smitast af kórónuveirunni um allan heim og yfir 958 þúsund látið lífið.

Þættir