Hvaða lyf breytti Trump í Superman?

ERLENT  | 15. október | 9:55 
Bandaríkjaforseti mun hafa verið meðhöndlaður með tilraunalyfinu REGN-COV2 en hann fékk líka annars konar meðferð. Trump þakkar batann REGN-COV2 en hann átti um skeið hlutabréf í lyfjafyrirtækinu Regeneron sem er að þróa lyfið REGN-COV2.

Bandaríkjaforseti mun hafa verið meðhöndlaður með tilraunalyfinu REGN-COV2 en hann fékk líka annars konar meðferð. Samkvæmt bestu heimildum var hann líka meðhöndlaður með remdesivír sem farið er að nota við Covid-19 með nokkuð góðum árangri.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði á fundi með kjósendum í vikunni að honum liði eins og hann hefði yngst um tuttugu ár, sér liði eins og Superman. Hver svo sem skýringin á því væri. 

Hann mun einnig hafa fengið barkstera sem er einnig farið að gefa illa veikum sjúklingum með COVID-19. Það er því ekki ljóst hvaða lyf kunna að hafa hjálpað Trump að ná bata. Kannski batnaði honum þrátt fyrir meðferðina sem hann fékk en ekki vegna hennar segir í svari Magnúsar Jóhannssonar, prófessor emeritus í líflyfjafræði við Háskóla Íslands, á Vísindavef HÍ.

Tvískinnungur Trumps

 

„Trump þakkar batann REGN-COV2 en þá má benda á að þetta lyf er alls ekki fullrannsakað og eftir er að sýna fram á að lyfið geri tilætlað gagn og sé öruggt. Trump átti um skeið hlutabréf í lyfjafyrirtækinu Regeneron sem er að þróa lyfið REGN-COV2. Hlutabréf í Regeneron hafa hækkað mjög mikið á undanförnum mánuðum. Það er svolítið kaldhæðnislegt að við þróun þessa lyfs voru notaðar stofnfrumur úr mannafóstri en Trump og ríkisstjórn hans hafa barist gegn notkun frumna úr mannafóstrum við rannsóknir,“ segir í svari Magnúsar.

 

En hvers konar lyf er REGN-COV2? Þetta lyf er ekki bóluefni heldur blanda tveggja mótefna, annað er upprunnið úr mönnum sem hafa veikst af COVID-19 og batnað en hitt úr músum sem voru sýktar með veirunni sem veldur COVID-19. Mótefnin eru síðan framleidd í erfðabreyttum eggjastokkafrumum úr kínverskum hömstrum en frumurnar eru ræktaðar í miklu magni. Þessum mótefnum er ætlað að bindast prótínum á yfirborði veirunnar og hindra að hún geti tengst við og sýkt frumur líkamans. Um er að ræða svo kölluð einstofna mótefni sem bindast við sitt hvorn staðinn á veirunni. Lyfið þarf að gefa sem stungulyf, það verkar einungis í stuttan tíma en veitir ekki langvarandi vörn gegn sjúkdómnum eins og bóluefni.

„Nú standa yfir lokarannsóknir á virkni og öryggi þessa lyfs en þangað til að þeim lýkur ríkir óvissa um framtíð REGN-COV2. Í þeim rannsóknum sem er lokið hefur lyfið verið gefið innan við 300 sjúklingum en sú tala verður komin í nokkra tugi þúsunda áður en þeim rannsóknum sem nú eru í gangi lýkur. Framleiðandinn telur sig geta verið tilbúinn með lyfjaskammta sem duga til að meðhöndla allt að 300.000 sjúklinga fyrir árslok þannig að lyfið verður ekki í boði nema handa tiltölulega fáum útvöldum fyrr en á næsta ári. Þetta lyf er í flokki líftæknilyfja sem öll eru dýr en enginn verðmiði er enn kominn á lyfið enda óvissa um kostnaðinn við lokarannsóknir.  

Fleiri lyfjaframleiðendur eru að þróa ný lyf sem byggja á sömu eða svipuðum forsendum og REGN-COV2,“ segir ennfremur á Vísindavef Háskóla Íslands.

Þættir