Yfir 30 þúsund smit á einum degi

ERLENT  | 16. október | 8:37 
Yfir 30 þúsund ný kórónuveirusmit voru staðfest í Frakklandi í gær og hafa ekki svo mörg smit verið staðfest á einum degi þar í landi frá því aukinn kraftur var settur í skimanir. Eigendur veitingahúsa segja hertar aðgerðir banabita staðanna.

Yfir 30 þúsund ný kórónuveirusmit voru staðfest í Frakklandi í gær og hafa ekki svo mörg smit verið staðfest á einum degi þar í landi frá því aukinn kraftur var settur í skimanir. Sömu sögu er að segja af Ítalíu, Póllandi og Þýskalandi.

Útgöngubann verður sett á í París og átta öðrum borgum Frakklands á morgun. Gildir útgöngubannið frá klukkan 21 til sex á morgnana. Alls var 30.621 staðfest smit í Frakklandi í gær en daginn áður voru þau tæplega 22.600. 

Líkt og greint var frá á mbl.is í gær segir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) nauðsynlegt að grípa til hertra reglna í Evrópu til að koma í veg fyrir dauðsföll af völdum Covid-19.

Frétt mbl.is

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, kynnti nýjar sóttvarnareglur á miðvikudagskvöldið en þær taka gildi á morgun, laugardag. 

Íbúar Parísar og úthverfa auk átta annarra borga, þar á meðal Marseille og Lyon, mega ekki yfirgefa heimili sín á meðan útgöngubannið er í gildi nema þeir hafi fyrir því verulega góða ástæðu. Bannið gildir í fjórar vikur.

Segja aðgerðirnar glórulausar

Eigendur bara, kaffihúsa og veitingastaða eru afar ósáttir við þessar hertu aðgerðir og segja að þær séu glórulausar. Engin leið sé fyrir staðina að lifa af og búast megi við fjöldagjaldþrotum. 

Forsætisráðherra Frakklands, Jean Castex, segir að lögregla verði mjög sýnileg á götum borganna til að fylgjast með því að banninu sé framfylgt. Aftur á móti megi fólk yfirgefa heimili sín ef það þarf að fara í vinnu, á sjúkrahús eða apótek.

Líkt og mbl.is greindi frá í gær gerði franska lögreglan húsleit á heimilum tveggja ráðherra og háttsettra embættismanna vegna rannsóknar á því hvernig þeir hafa tekið á sóttvarnareglum. 

Frétt

Þættir