Taka prentslaginn til Íslands á ný

INNLENT  | 12. nóvember | 15:05 
Ekki hefði það þótt til tíðinda á árum áður ef prentverksmiðja hefði fest kaup á bókbandsbúnað til bókaprentunar. Nú er hins vegar tíðin önnur því stærstu bókaútgefendur landsins hafa á undanförnum árum prentað flest sín upplög erlendis. PrentmetOddi festi þó kaup á slíkri vél nýlega og ber þá von í brjósti að útgefendur horfi til heimamarkaðar í framtíðinni.

Ekki hefði það þótt til tíðinda á árum áður ef prentverksmiðja hefði fest kaup á bókbandsbúnað til bókaprentunar. Nú er hins vegar tíðin önnur því stærstu bókaútgefendur landsins hafa á undanförnum árum prentað flest sín upplög erlendis. PrentmetOddi festi þó kaup á slíkri vél nýlega og ber þá von í brjósti að útgefendur horfi til heimamarkaðar í framtíðinni. 

Síðasta vélin úr landi 2017

Prentmet og Oddi sameinuðust nýlega undir merkjum Prentmet Odda. Er þetta nú eina fyrirtækið sem  hefur búnað til að fullvinna harðspjaldabækur síðan Oddi seldi sambærilega vél úr landi fyrir um þremur árum. „Árið 2017 tilkynntu stærstu bókaútgefendur Odda áætlanir um að fara með prentunina erlendis. Í framhaldinu ákvað Oddi að hætta vinnslu harðspjaldabóka. Þeim hjá Odda fannst ekki svara kostnaði að halda úti tækjakostinum því margir sem voru að vinna við vélina voru komnir á aldur. Þeir sáu ekki fram á að það tæki sig að fá inn nýtt fólk og þar sem stór hluti prentunarinnar væri farinn úr landi,“ segir Guðmundur Ragnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Prentmets Odda.

Tekur 4-5 vikur að fá bækur sendar 

 Hafa forlögin hagsmuni af því að prenta á Íslandi? 

„Við á Íslandi erum að greiða einna hæstu laun í heimi og við eigum heimsmet í hæsta hlutfalli launa af veltu fyrirtækja sem fer í launakostnað. Eðlilega er því dýrara að framleiða á Íslandi, heldur en í Litháen eða Póllandi. Síðan ertu með verksmiðjur sem gera ekkert nema að framleiða bækur. Því næst meiri hagræðing þar en þú þarft að staðgreiða þær bækur og vinnslutíminn er 4-6 vikur.“

 

 

Ákváðu að prenta á Íslandi 

Hvers vegna var þá farið í þessi kaup?

„Ef við snúum þessu yfir á Ísland þá getum við tekið dæmi um eina stóra útgáfu hér á landi. Björn Bragi (Arnarsson) er að gefa út Skipulagsbókina hennar Sólrúnu Diego. Hún var á leið í prentun í Litháen en ég náði að snúa henni heim. Ástæðan var sú að þú færð fyrsta eintakið í hendurnar eftir viku hér á landi, en hann hefði þurft að bíða í fimm vikur að lágmarki eftir bókinni frá Litháen. Hann gat þá verið með sölutíma á bókinni sjö vikur fyrir jól, í stað þess að vera með sölutíma í 2-3 vikur fyrir jól. Munurinn á prentuninni var 200 krónur á bók í því tilfelli,“ segir Guðmundur. 

 

 

Hann segir að hann geti ekki keppt við verð ytra. „Ég tók saman tilboðspakka fyrir stóran útgefanda á um 20 titlum í haust. Prentkostnaðurinn var um 700 kr á hverja bók hjá mér samanborið við 400 krónur erlendis,“ segir hann.

Guðmundur segist hafa haft samband við útgefendur upp á það að fá stóra titla í prentun hjá sér, en hann hafi fengið þau svör að prentunin hjá Prentmet Odda væri fínn valkostur ef til endurprentunar kemur. 

„Svo langar mig að nefna að við erum með Svansvottaða framleiðslu, græna orku, umhverfisvottað fyrirtæki og kannski er ástæða fyrir menn að horfa á þetta áður en þeir taka ákvörðun um sína prentun,“ segir Guðmundur.  

 

 

Þættir