Mikið um útköll á Austurlandi – myndskeið

INNLENT  | 9. janúar | 16:58 
Aftakaveður er á Austurlandi og hefur verið í allan dag. Nánast allar björgunarsveitir á Austurlandi hafa verið kallaðar út það sem af er degi, fyrst klukkan átta í morgun í Neskaupstað.

Aftakaveður er á Austurlandi og hefur verið í allan dag. Nánast allar björgunarsveitir á Austurlandi hafa verið kallaðar út það sem af er degi, fyrst klukkan átta í morgun í Neskaupstað. Þakplötur hafa fokið, rúður hafa brotnað, garðskúrar, ruslatunnur og annað lauslegt farið á flug. Alls hafa nú um 60 útköll borist.

Að sögn aðgerðastjórnar björgunarsveita á Austurlandi er eitthvað um fok á Seyðisfirði en þó ekki hætta á ferðum þar, en starfsmenn Seyðisfjarðarbæjar hafa keppst við að binda niður allt lauslegt á skriðusvæðinu sem myndaðist nú skömmu fyrir jól.

Björgunarsveitin Gerpir var við störf í Neskaupstað í dag og má sjá störf hennar á meðfylgjandi myndskeiði, meðal annars við smábátahöfnina og í Nesskóla þar sem rúður virðast hafa brotnað. 

mbl.is

„Já, það hefur verið mikið um útköll,“ segir aðgerðastjórn björgunarsveita á Austurlandi í samtali við mbl.is. 

„Mér sýnist veðrinu vera að fara að slota en annars var ég nú að vona að þetta yrði búið núna. Við verðum að hérna alla vega fram yfir kvöldmatarleytið.“

mbl.is

Appelsínugult verður að gulu

Enn er appelsínugul veðurviðvörun í gildi um allt Austurland en veðrinu á þó að slota með kvöldinu að sögn veðurfræðings. Snjókomu á svæðinu á að linna nú með kvöldinu og þá mun fást betra skyggni. 

Í Vatnsskarði eystra mældist meðalvindhraði fyrir hádegi í dag 40 metrar á sekúndu og fór upp í 50 metra á sekúndu í hviðum. 

Á morgun taka svo við gular viðvaranir á Norðausturlandi og vindstig allt að 20 metrum á sekúndu. 

Þættir