Leikurinn sem allir hafa beðið eftir

ÍÞRÓTTIR  | 12. janúar | 23:36 
Leikur Liverpool og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu er sá leikur sem allir áhugamenn um ensku úrvalsdeildina hafa beðið lengi eftir að sögn Andy Townsend.

Leikur Liverpool og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu er sá leikur sem allir áhugamenn um ensku úrvalsdeildina hafa beðið lengi eftir að sögn Andy Townsend.

Liðin mætast á Anfield í Liverpool á sunnudaginn kemur en United er með 36 stig í efsta sæti deildarinnar á meðan Liverpool er í öðru sætinu með 33 stig.

United getur því náð sex stiga forskoti á erkifjendur sína í Liverpool með sigri á sunnudaginn en Liverpool getur endurheimt toppsætið með sigri á Anfield.

„Þetta er líklega sá leikur sem flestir áhugamenn um ensku úrvalsdeildina vilja sjá og reyna að fylgjast með,“ sagði Andy Townsend.

„Það sem gerir einvígið enn þá skemmtilegra í ár er að liðin eru að berjast á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en það er orðið ansi langt síðan það gerðist síðan. Það gerir leikinn enn þá áhugaverðari.

Það er engin krísa í gangi hjá Liverpool en Jürgen Klopp hlýtur samt að hafa einhverjar áhyggjur þar sem liðið hefur ekki verið að spila eins vel og þeir eru vanir á undanförnum vikum.

Þeir hafa verið í miklum meiðslavandræðum í öftustu víglínu og á sama tíma hafa fremstu þrír ekki verið að hitta markið nægilega vel.

Þetta eru allt frábærir fótboltamenn og þeir eiga eftir að finna sitt gamla form á nýjan leik og þetta er ekki áhyggjuefni fyrir Liverpool,“ bætti Townsend við.

Þættir