Alræmdu hundasláturhúsi lokað

ERLENT  | 5. mars | 11:24 
Alræmdu hundasláturhúsi var lokað í Kambódíu á fimmtudag en það er liður í viðleitni til að minnka viðskipti með hundakjöt í landinu. Talið er að 2-3 milljónum hunda sé slátrað í Kambódíu á ári hverju og í höfuðborginni eru ríflega 100 veitingahús sem bjóða upp á hundakjöt.

Alræmdu hundasláturhúsi var lokað í Kambódíu á fimmtudag en það er liður í viðleitni til að minnka viðskipti með hundakjöt í landinu. Talið er að 2-3 milljónum hunda sé slátrað í landinu á ári hverju og í höfuðborginni Phnom Penh eru ríflega 100 veitingahús sem bjóða upp á hundakjöt.

 

Gagnrýni á iðnaðinn hefur farið stigvaxandi allt frá því að hinn fimmtugi Ouk Mol, sem starfaði áður sem hermaður, hóf rekstur árið 1995 en rætt er við hann í myndskeiði AFP sem fylgir fréttinni. Í samtali við fréttamann segist hann finna fyrir mikilli skömm vegna starfs síns og því ætli hann að segja skilið við iðnaðinn en dýraverndunarsamtökin Four Paws, sem hafa barist gegn illri meðferð á hundum og neyslu á hundakjöti í landinu, áætla að í sláturhúsinu hafi um það bil einni milljón hunda verið slátrað á þessum 25 árum. Mol hefur verið helsti birgir veitingahúsanna í borginni. 

 

Á degi hverjum var um 200 hundum drekkt í sláturhúsinu en þegar húsinu var lokað voru einungis 16 hundar á staðnum sem liðsmenn Four Paws björguðu en þeim verður komið til nýrra eigenda utan Kambódíu. Mol og fjölskyldu hans var boðinn styrkur af samtökunum til að opna matvörubúð og geta þannig hætt starfseminni. Soa Phally, eiginkona Mols, segir í samtali við AFP að því fylgi mikill léttir að hætta rekstrinum. Fólk hafi verið farið að líta fjölskylduna hornauga.

 

Borgin Siam Reap er vinsæll áfangastaður ferðamanna í Kambódíu og á síðasta ári var verslun með hundakjöt bönnuð þar og í nágrenninu, sem þótti sigur fyrir dýrverndunarsamtök. Í vikunni lögðu yfirvöld hald á 61 hund sem var á leið í slátrun í borginnni. Prótínríkt hundakjöt hefur lengi verið ódýr kostur í Suðaustur-Asíu og er t.a.m. vinsælla í Víetnam en í Kambódíu. Það er því mikið verk fyrir höndum hjá samtökum á borð við Four Paws en hægt er að kynna sér starfsemi samtakanna hér.

Þættir