Pútín stefnir á hjarðónæmi í haust

ERLENT  | 21. apríl | 22:18 
Vladimir Pútín, forseti Rússlands, vonast til að hjarðónæmi gegn kórónuveirunni muni nást í landinu í haust. Hann hefur einnig hrósað þjóð sinni fyrir að hafa þróað þrjár tegundir bóluefnis.

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, vonast til að hjarðónæmi gegn kórónuveirunni muni nást í landinu í haust. Hann hefur einnig hrósað þjóð sinni fyrir að hafa þróað þrjár tegundir bóluefnis.

„Bólusetningar eru gríðarlega mikilvægar [...] til að hægt verði að ná hjarðónæmi í haust,“ sagði Pútín í árlegri ræðu sinni til þjóðarinnar.

„Vísindamenn okkar hafa náð virkilega góðum árangri. Núna eiga Rússar þrjú áreiðanleg bóluefni gegn kórónuveirunni,“ bætti hann við.

Pútín, sem er 68 ára, fékk annan skammt af bóluefni í síðustu viku. Hann hefur ekki greint frá tegund bóluefnisins en Rússar hafa þróað Spútnik V, EpiVacCorona og CoviVac.

 

Í ræðunni hvatti Pútín landa sína til að fara í bólusetningu. Þrátt fyrir að hafa byrjað að bólusetja strax í desember í fyrra, á undan flestum löndum, hafa Rússar verið tregir til að mæta í bólusetningu. Margir eru fullir efasemda um ágæti þess og í nýlegri skoðanakönnun kom fram að innan við þriðjungur vill láta bólusetja sig.

Aðstoðarforsætisráðherrann Tatina Golikova sagði í síðustu viku að yfir átta milljónir af 144 milljónum Rússa hafi verið bólusettir.

Þjóðin hefur farið illa út úr faraldrinum. Að sögn heilbrigðisyfirvalda hafa yfir 4,7 milljónir manna smitast af veirunni og um 106 þúsund manns látist.

Þættir