Kappa lýst sem „algjöru villidýri“

ERLENT  | 2. júní | 8:36 
Íbúar í Melbourne í Ástralíu þurfa að halda sig heima aðra vikuna í röð en stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar, sem er lýst sem „algjöru villidýri“ í frétt AFP-fréttastofunnar hefur greinst meðal 60 borgarbúa.

Íbúar í Melbourne í Ástralíu þurfa að halda sig heima aðra vikuna í röð en stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar (B.1.617.1 eða Kappa), sem er lýst sem „algjöru villidýri“ í frétt AFP-fréttastofunnar, hefur greinst meðal 60 borgarbúa. 

Íbúar Melbourne, sem eru 5 milljónir talsins, höfðu vonast til þess að sjö daga lokun væri að baki í kvöld en nú hafa yfirvöld í Victoria-ríki ákveðið að framlengja hertar sóttvarnareglur um viku.

 

Um er að ræða Kappa-afbrigði veirunnar en það greindist fyrst á Indlandi í október. „Við verðum að uppræta þetta því að öðrum kosti mun fólk deyja,“ segir forsætisráðherra Victoria, James Merlino. Hann segir Kappa-afbrigðið breiðist hraðar út og sé meira smitandi en önnur afbrigði Covid-19 sem hafa numið land í ríkinu hingað til. 

Landamæri Ástralíu eru lokuð öðrum ferðamönnum en Nýsjálendingum og um leið og hópsmit kemur upp þá er öllu skellt í lás á viðkomandi svæði. Aðeins 2% Ástrala eru fullbólusettir. 

Merlino segir að væntanlega megi þeir íbúar ríkisins sem búa utan Melbourne yfirgefa heimili sín á morgun en samt sem áður verða harðar sóttvarnareglur í gildi í ölu ríkinu. Í Melbourne fá nemendur í eldri bekkjum að snúa aftur í skóla og eins hluti þeirra sem starfar utandyra. Öðrum er gert að halda sig heima. 

 

Yfirmaður heilbrigðismála í Victoria, Brett Sutton, segir að Kappa-afbrigðið sé algjört villidýr og vegna þess megi fimm koma saman í stað 100 áður. Hann segir að lönd þar sem ekkert samfélagssmit hefur greinst á þessu ári hafi nú misst stjórnina á faraldrinum vegna Kappa.  

Talið er að þetta sé í 17. skiptið á hálfu ári þar sem smit hefur borist út úr sóttvarnahúsi í Ástralíu. Merlino segir mikilvægt að alríkisstjórnin fjármagni byggingu sóttvarnahúss í Victoria og að hún taki þátt í að styðja fjárhagslega við starfsmenn og fyrirtæki sem hafa orðið fyrir tjóni vegna hertra sóttvarnareglna. 

Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, hefur hingað til hafnað þessu og sagt að ríkið hafi þegar fengið milljarða dala í fjárhagsaðstoð vegna farsóttarinnar og í raun hafi ekkert ríki Ástralíu fengið jafn mikinn stuðning og Victoria.

Þættir