Þungt högg í heimi glæpamanna

ERLENT  | 8. júní | 6:42 
Fleiri hundruð hafa verið handteknir víðs vegar um heiminn í alþjóðlegri lögregluaðgerð en rannsóknin hefur staðið yfir í þrjú ár. Fyrst var upplýst um málið í dag og standa yfir handtökur í tengslum við það víðs vegar um heiminn.

Fleiri hundruð hafa verið handteknir víðs vegar um heiminn í alþjóðlegri lögregluaðgerð en rannsóknin hefur staðið yfir í þrjú ár. Fyrst var upplýst um málið í dag og standa yfir handtökur í tengslum við það víðs vegar um heiminn. Þúsundir glæpamanna í 90 löndum tóku þátt í samskiptum sín á milli samkvæmt upplýsingum frá lögreglu sem hefur fylgst með um 20 milljónum skilaboða þeirra á milli. 

Fylgst var með dulkóðuðum samskiptum glæpamanna sín á milli og tóku lögregluyfirvöld í 16 ríkjum Evrópu, Asíu, Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Bandaríkjunum þátt í aðgerðinni sem nefnist Operation Trojan Shield. Fylgst var með liðsmönnum mafíunnar, skipulögðum glæpasamtökum í Asíu og vélhjólasamtökum þar sem rædd voru fíkniefnaviðskipti, peningaþvætti og jafnvel morð. 

Í Ástralíu hafa 224 verið handteknir í tengslum við rannsóknina og segir forsætisráðherra landsins, Scott Morrison, aðgerðina hafa höggvið stórt skarð í starfsemi skipulagðrar glæpastarfsemi, ekki bara í Ástralíu heldur víðs vegar um heiminn. 

Lögreglan fylgdist með samskiptum glæpamannanna sín á milli en samskiptin fóru fram með ANOM, smáforriti sem gefur möguleika á að eiga dulkóðuð samskipti með snjallsímum. Ekki er hægt að hringja, senda tölvupóst né heldur er boðið upp á staðsetningarbúnað, aðeins skilaboð til annarra ANOM-snjallsíma samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar og fleiri erlendra fréttamiðla í morgun. Snjallsímana er bara hægt að kaupa á svarta markaðnum og til þess að geta tekið þátt þarf að fá afhentan kóða frá einhverjum sem þegar er með ANOM í notkun. 

Ástralskir fjölmiðlar greina frá því að lögreglumenn hafi aðstoðað við að dreifa símunum til þekktra glæpamanna, þar á meðal höfuðpaurs ástralsks fíkniefnahóps sem er á flótta undan réttvísinni. Sá hafði hreiðrað um sig í Tyrklandi. „Glæpamenn þurftu að þekkja annan glæpamann til að fá tæki,“ segir í yfirlýsingu frá áströlsku alríkislögreglunni. 

Aðgerðin er afkvæmi kerfa hjá bandarísku alríkislögreglunni (FBI) sem nefnast Phantom Secure og Sky Global sem veita henni aðgang að tugþúsundum notenda, þar á meðal þekktra glæpamanna.

Í Ástralíu eiga 224 manneskjur yfir höfði sér 500 ákærur og sex fíkniefnaverksmiðjum var lokað þar í landi. Jafnframt var lagt hald á mikið magn skotvopna sem og 45 milljónir Ástralíudala, sem svarar til rúmlega 4,3 milljarða króna, í reiðufé. 

Nýsjálenska lögreglan hefur handtekið 35 í tengslum við aðgerðina og eru þeir taldir tengjast 900 sakamálum, svo sem stórfelldum fíkniefnaviðskiptum, peningaþvætti og frekari saknæmum brotum. Þeir verða leiddir fyrir dómara í dag. Hald var lagt á metamfetamín, skotvopn og milljónir bandaríkjadala í reiðufé auk eigna. 

Frekari handtökuskipanir eru á leiðinni og að sögn yfirlögregluþjóns verða fleiri handteknir þar á næstunni í tengslum við aðgerðina. 

Frétt BBC

CNN

 

Þættir