Er hún í alvöru ólétt núna?

ÍÞRÓTTIR  | 12. júlí | 17:20 
„Ég fékk óvenju góð viðbrögð þegar ég tilkynnti félaginu að ég væri barnshafandi,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu og leikmaður Lyon í Frakklandi, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

„Ég fékk óvenju góð viðbrögð þegar ég tilkynnti félaginu að ég væri barnshafandi,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu og leikmaður Lyon í Frakklandi, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Sara Björk, sem er þrítug að aldri, á von á sér í nóvember á þessu ári en Lyon hefur verið sterkasta kvennalið heims undanfarin ár.

Hún er fyrsti leikmaðurinn í sögu félagsins sem verður barnshafandi á meðan hún er samningsbundin stórliðinu en samningur hennar við franska félagið rennur út næsta sumar.

„Þegar ég nefndi þetta í klefanum voru sumar hoppandi af gleði en aðrar voru eiginlega bara bíddu ha er hún í alvörunni ólétt núna?“ sagði Sara.

„Wendie Renard, fyrirliða Lyon, leist ekkert á þetta og hún kom til mín með krosslagðar hendur og spurði mig hvort ég væri að fara að spila meira með liðinu á tímabilinu.

Ég sagðist halda ekki þar sem ég var orðin hálfslöpp á þessum tímapunkti og þá kom smá svipur á hana og hún gekk í burtu.

Hún þurfti smá augnablik til að jafna sig en kom aftur stuttu seinna og óskaði mér til hamingju,“ sagði Sara meðal annars.

Viðtalið við Söru Björk í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

Þættir