Bjarni vill breyta áfengislögum

INNLENT  | 21. júlí | 17:40 
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, telur tímabært að endurskoða löggjöf um áfengisverslun, hún sé tímaskekkja. Hann fagnar netverslun með áfengi.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, telur tímabært að endurskoða löggjöf um áfengisverslun, hún sé tímaskekkja. Þetta kemur fram í viðtali við Bjarna í Dagmálum í dag, streymi á netinu sem opið er öllum áskrifendum Morgunblaðsins.

Spurður um nýleg kærumál Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á hendur netverslunum með áfengi segir Bjarni að hann hafi skilning á því að „ríkið“ vilji fá skorið úr um lögmætið, það sé rekið á grundvelli einkaleyfis á smásölu með áfengi.

Hann segir kærubréf ÁTVR um skattskil vínkaupmanna í þessu máli annað mál. „Ég skil ekki alveg hvað ÁTVR er að fara þar. Mér sýndist þetta bara vera einhverjar ágiskanir,“ segir Bjarni.

„Ég hef verið talsmaður þess í langan tíma að við myndum auka frelsi í áfengisverslun á Íslandi,“ segir Bjarni um fyrirkomulag áfengisverslunar. „Ég hef einfaldlega ekki sannfæringu fyrir því að það sé nauðsynlegt að hið opinbera reki þessar verslanir og það séu opinberir starfsmenn sem afhendi vöruna.“

Hann segir að stjórnmálamenn verði að komast frá þeirri hugsun að ríkið þurfi að sjá um alla hluti sem fólk vilji hafa í lagi. „Ég á erfitt með að sjá að netverslun með áfengi stangist á við lögin,“ segir Bjarni og bætir við: „Ég fagna netverslun með áfengi, mér finnst hún frábær viðbót.“

Þættir