„Við fundum strax hvað það var sterkt“

FÓLKIÐ  | 5. ágúst | 13:27 
Ingileif Friðriksdóttir stofnaði Hinseginleikann árið 2016 ásamt konunni sinni Maríu Rut. Þá höfðu þær verið saman í um þrjú ár og vildu ná að miðla fjölbreytileika hinsegin samfélagsins.

Ingileif Friðriksdóttir stofnaði Hinseginleikann árið 2016 ásamt konunni sinni Maríu Rut Kristinsdóttur. Þá voru þær búnar að vera saman í um þrjú ár og vildu ná að miðla fjölbreytileika hinseginsamfélagsins og ýta undir sýnileika. Ingileif segir að hugmyndin að þessum fræðsluvettvangi um fjölbreytileikann hafi komið á ansi óvanalegum tíma.

„Ég var bara í prófum uppi í háskóla í lögfræðinni, var búin að vera að læra og hausinn kominn eitthvað allt annað en hjá lögfræðibókunum mínum,“ segir Ingileif, sem er með BA-gráðu í lögfræði. Við allan lesturinn var hugurinn farinn að leita annað og greinilega orðinn frjór af hugmyndum. „Þá einhvern veginn kemur til mín þessi hugmynd að við getum opnað einhvern svona vettvang þar sem við fáum mismunandi raddir inn. Á þessum tíma var Snapchat rosa vinsæll miðill og stories inni á Snapchat tröllriðu öllu.“

Hún nefndi þetta strax við Maríu, sem vildi þó að konan hennar kláraði erfiða prófatörn áður en þær réðust í næsta verkefni. „Svo kláraði ég prófin og var ennþá rosa mikið að hugsa um þetta þannig að við ákváðum bara að kýla á það. Við opnuðum þennan miðil og vorum ótrúlega heppnar, þetta einhvern veginn fór rosa hratt af stað. Boltinn fór að rúlla.“

Út frá því varð Hinseginleikinn til. Ingileif segir að þær hafi heyrt í alls konar fólki úr hinseginsamfélaginu sem var til í að taka yfir svokallað story á samfélagsmiðlinum Snapchat og sýna frá lífi sínu og segja sína sögu í einn sólarhring. Viðbrögðin voru góð og mikil. „Það bara einmitt sprakk svolítið í loft upp. Strax komu þúsundir fylgjenda þarna inn og maður sá strax hvað mismunandi raddir skiptu miklu máli,“ segir Ingileif, en Hinseginleikinn leggur mikla áherslu á framsetningu ólíkra hópa til að ná til sem flestra.

„Þó svo að ég sé samkynhneigð og geti sagt mína sögu á einhvern ákveðinn hátt þá eru bara ákveðið margir sem tengja við það. Svo er trans fólk og það tengir betur við sögu einhvers sem hefur verið í þeirra sporum og svo framvegis, bara með alla hópa innan hinseginsamfélagsins. Þannig að við fundum það sterkt, að koma með mismunandi andlit að borðinu þarna.“

Þætt­ir Dag­mála eru opn­ir áskrif­end­um Morg­un­blaðsins og má horfa á viðtalið við Ingileif Friðriksdóttur í heild sinni hér. Kaupa má vikupassa hér.

Þættir