5 fjallgöngumenn létust á hæsta tindi Evrópu

ERLENT  | 24. september | 10:50 
Fimm fjallgöngumenn létust eftir hvassviðri á Elbrusfjalli í einu mannskæðasta slysi síðustu ára á þessum hæsta tindi Evrópu. Rússnesk yfirvöld greindu frá þessu í dag.

Fimm fjallgöngumenn létust eftir hvassviðri á Elbrusfjalli í einu mannskæðasta slysi síðustu ára á þessum hæsta tindi Evrópu. Rússnesk yfirvöld greindu frá þessu í dag.

Elbrus er eldfjall í dvala í norðurhluta Kákasussvæðisins í Rússlandi. Það er 5.642 metra hátt. Innlendum ferðamönnum hefur fjölgað verulega á fjallinu vegna kórónuveirufaraldursins sem hefur sett svip sinn á alþjóðleg ferðalög. 

Fjallgöngumennirnir sem létust voru komnir í meira en 5.000 metra hæð þegar óveður skall á með kröftugum vindum, litlu skyggni og hitastigi undir frostmarki. Fjallgöngumennirnir voru í skipulagðri ferð hjá ferðaþjónustunni Elbrus Guide og voru hluti af stærri hópi. 14 öðrum var bjargað af björgunarsveit niður af fjallinu. 

Talsmaður Elbrus Guide segir að fjórir leiðsögumenn hafi fylgt fjallgöngumönnunum. Einn þeirra segist áður hafa farið upp á topp Elbrus með hóp í sambærilegu veðri en það hafi gengið snurðulaust fyrir sig.

 

Lést í örmum leiðsögumannsins

Þegar hópurinn var á leið upp ákvað kona úr hópnum að snúa niður af fjallinu vegna vanlíðanar. Konan lést stuttu seinna í örmum leiðsögumannsins, að sögn talsmanns Elbrus Guide. Leiðsögumaðurinn beið í nokkrar klukkustundir eftir hinum úr hópnum en þegar ekkert bólaði á þeim ákvað hann að ganga niður í grunnbúðir Elbrus og kalla á björgunarsveit. 

Restin af hópnum hélt áfram upp fjallið en talsmaður Elbrus Guide segir að ófyrirsjáanlegur stormur hafi þá skollið á. Einn fótbrotnaði á leiðinni upp og hægði það á hópnum. Tveir fjallgöngumenn frusu í hel og tveir misstu meðvitund og létust þegar þeir voru bornir niður. 

11 úr hópnum voru að auki fluttir á sjúkrahús með kalsár. Þar af liggja tveir nú á gjörgæslu. 

Fjöldi Íslendinga hafa gengið á fjallið, þeirra á meðal Vilborg Arna Gissurardótti, Guðmund­ur Stefán Maríus­son, Ingólf­ur Geir Giss­ur­ar­son og Gauti Steinþórsson, sem var einungis 15 ára gamall þegar hann náði á toppinn. 

Þættir