„Hann er stærri en félagið“

ÍÞRÓTTIR  | 24. október | 19:11 
Cristiano Ronaldo, framherji Manchester United var til umræðu í Vellinum eftir 5:0 tap gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Cristiano Ronaldo, framherji Manchester United var til umræðu í Vellinum eftir 5:0 tap gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Þeir Tómas Þór Þórðarson, Eiður Smári Guðjohnsen og Gylfi Einarsson ræddu frammistöðu Ronaldo.

Eiður Smári gagnrýndi Ronaldo fyrir vinnuframlag sitt.

„Eins rómantískt og sjarmerandi það var að fá Ronaldo aftur til United þá sjáum við að hann er ekki að fara gera neitt annað aukalega fyrir liðið nema skora mörk. Bruno Fernandes er ekki heldur sá duglegasti varnarlega, svo hin liðin finna alveg veikleika. Þau vita alveg hvar þau komast upp völlinn þegar þú ert með tvo sem taka ekki þátt varnarlega.“

Tómas Þór sýndi þá tölfræði sem styður það sem Eiður sagði.

„Þá er spurningin, hefur lið efni á því að hafa einn svona leikmann ef þeir ætla að vinna deildina? Ég ætla ekki að segja að þetta verði þeim að falli en þetta getur orðið til þess að það sé mun meiri vinna framundan fyrir United en þeir kannski bjuggust við þegar hann kom.“

Tómas spurði þá Gylfa hvort eitthvað annað væri hægt en að byrja honum alla leiki.

„Ég held að það sé líka vandamálið. Hann er stærri en klúbburinn. Hann er það stór prófíll að sama hversu lélegur hann er þjálfarinn ekki að fara að taka hann fyrir í hálfleik.“

Umræðuna í heild sinni má sjá hér að ofan.

Leikur Manchester United og Liverpool var sýndur beint á Síminn Sport.

Þættir