Færði Geirmundi „Glaumsgenin“ aftur með óvæntri hryssu

INNLENT  | 15. nóvember | 14:32 
Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, kom Geirmundi Valtýssyni tónlistarmanni skemmtilega á óvart í gær þegar hann leiddi inn í Kakalaskála í Skagafirði hryssuna Sóleyju frá Búðardal.

Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, kom Geirmundi Valtýssyni tónlistarmanni skemmtilega á óvart í gær þegar hann leiddi inn í Kakalaskála í Skagafirði hryssuna Sóleyju frá Búðardal.

Þar kynntu Guðni og Guðjón Jónasson menntaskólakennari bók sína, Guðni á ferð og flugi, en þangað hafði Geirmundur verið fenginn til þess að leika nokkur lög á harmonikku. Einn kafli í bókinni fjallar einmitt um Geirmund en við skrif bókarinnar sagði Geirmundur þeim Guðna og Guðjóni frá hestinum Glaumi Spunasyni frá Geirmundarstöðum sem hann ræktaði.

„Ég er nú bara varla búinn að ná mér eftir þetta, ég átti alls ekki von á þessu. Ég er náttúrlega tengdur hrossinu,“ sagði Geirmundur í samtali við Morgunblaðið í gær en gjöfin á sér nokkra baksögu. Seldi Geirmundur frá sér hestinn Glaum til þess að eiga fyrir áburði á túnin en Glaumur var taminn og sýndur og endaði sem hátt dæmdur kynbótahestur og var á endanum seldur úr landi.

 

Stórbrotin stund

 

Geirmundur átti ekkert folald undan gæðingnum sem hann ræktaði og þótti mjög miður. Hann var því yfir sig ánægður þegar Guðni kom honum á óvart með hryssunni Sóleyju, sem hann keypti að eigin sögn með góðra manna hjálp. Sóley er fyrstu verðlauna hryssa og með fyli en hún var leidd inn á gólf í Kakalaskála og gefin Geirmundi með formlegum hætti.

„Þetta var stórbrotin stund í Kakalaskála hjá Sigurði Hansen. Það kom margt fólk úr Skagafirði og víðar, ásamt hjónunum Geirmundi og Mínervu,“ segir Guðni og heldur áfram:

„Þarna kom það fram að hann leiddi varir að vörum og vanga hjá ástföngnu fólki um allt land og hefur skapað fleiri hjónabönd en nokkur einasti prestur. Þetta var þakklætisgjörð til Geirmundar,“ segir Guðni að endingu.

Þættir