Mörg þúsund Íslendingar nota CBD með góðum árangri

INNLENT  | 22. nóvember | 12:13 
Sigurður Hólmar Jóhannesson, formaður Hampfélagsins, segir mörg þúsund Íslendinga taka inn CBD hampolíu við ýmsum kvillum og sjúkdómum og vísar því á bug að olían sé „snákaolía“.

Sig­urður Hólm­ar Jóhannesson, formaður Hampfélagsins og framkvæmdastjóri Ozon, ræddi um nytsemi CBD hampolíu í Dag­mál­um, frétta- og menn­ing­ar­lífsþætti Morg­un­blaðsins, en hann segir mörg þúsund Íslendingar taka inn olíuna við ýmsum kvillum og sjúkdómum með góðum árangri.

Olían er markaðssett sem húðolía, enda ekki enn leyfilegt að markaðssetja olíuna sem fæðubótarefni hér á landi. Sigurður segir þó að þar sem þetta er náttúruleg olía sé ekkert því til fyrirstöðu að fólk taki hana til inntöku.

„Eiginlega enginn sem hefur ekki fundið einhverja bætingu“

„Við megum ekki segja við fólk að hún sé til inntöku en eftir að fólk er búið að kaupa hana ákveður það sjálft hvað það gerir við hana. Ég hef aldrei falið það að ég er að taka olíu til inntöku og búinn að gera það síðan 2017. Ásamt mörg þúsund Íslendingum sem að hafa verið að gera þetta.

Íþróttafólk, fólk með Parkinson, fólk með MS, fólk með alls konar kvilla. Það er eiginlega enginn sem hefur ekki fundið einhverja bætingu. Það er eiginlega svolítið magnað,“ segir Sigurður en hann útskýrir hvaða áhrif olían hefur á líkamann í viðtalinu en hann segir flesta taka fyrst eftir því að olían bætir svefninn til muna.

Lagði sig þrisvar til fjórum sinnum á dag

Lýsti hann góðum áhrifum olíunnar á hann sjálfan en hann hefur glímt við svima og sjóntruflanir um margra ára skeið sem varð meðal annars til þess að hann datt út af vinnumarkaðinum.

„Það sem þetta gerði fyrir mig er að ég var svo þreyttur alltaf. Af því að þegar þú ert stöðugt með svima þá verður þú þreyttur í hausnum. Ég þurfti að leggja mig þrisvar, fjórum sinnum á dag svona í korter til að ná áttum en í dag þarf ég ekkert að gera það. 

Fljótlega eftir að ég byrjaði á þessari olíu þá fékk ég aukinn kraft. Eins og kannski sést ég er að gera ótrúlega margt í dag,“ segir Sigurður sem segir olíuna hjálpa honum að „fókusera“ og halda athygli. 

Ekki „snákaolía“

Spurður út í þá sem halda því fram að olían sé bara „snákaolía“ sagði Sigurður að það væri lykilatriði að lesa sér til um efnið og virkni þess á líkamann.

„Af því að hún hefur svona víðtæk áhrif á líkamann þá er ekkert skrítið að fólk segi, er þetta ekki bara snákaolía?“ sagði Sigurður. Hann hvetur fólk til að skoða útgefnar rannsóknir á netinu um iðnaðarhampinn, CBD efnið og virkni þess.  

„Þá kannski kemst fólk að annarri niðurstöðu. Að þetta sé ekki bara „snákaolía“,“ segir Sigurður en hann flytur sjálfur inn hreinar CDB-vörur en hægt er að kynna sér þær á vefsíðu hans. 

Sjáðu þátt­inn í heild sinni hér.

Þættir