Bjarga fiskfarmi af Holtavörðuheiðinni

INNLENT  | 17. janúar | 17:47 
Illa gengur að reisa við vörubíl með tengivagn sem fór á hliðina á Holtavörðuheiðinni í gær. Bíllinn inniheldur tugi tonna af fiski sem björgunarsveitarfólk stendur nú í ströngu við að bjarga, enda hætta á að fiskurinn skemmist og verðmæti tapist.

Illa gengur að reisa við vörubíl með tengivagn sem fór á hliðina á Holtavörðuheiðinni í gær.

Bíllinn inniheldur tugi tonna af fiski sem björgunarsveitarfólk stendur nú í ströngu við að bjarga, enda hætta á að fiskurinn skemmist og verðmæti tapist. Bílstjórinn var fluttur af vettvangi og slapp ómeiddur.

Umferð um Holtavörðuheiði gengur hægt vegna þessa og hefur annarri akreininni verið lokað að sögn Höskuldar Erlingssonar, aðalvarðstjóra lögreglunnar á Norðurlandi vestra. Fljúgandi hálka er víða á landinu.

Fjöldi útafakstra 

„Aðstæður voru slæmar í gær og vegurinn svellaður og bíllinn fær á vindhviðu og veltur á hliðina. Það hefur ekki verið hægt að ná bílnum upp enn vegna veðurs en verið að tæma hann vegna þess að verið er að bjarga verðmætum á farminum,“ segir Höskuldur.

Að hans sögn var veðrið slæmt eftir kvöldmatarleytið í gær og nokkuð hafi verið um útafakstra án þess að fólk slasaðist. „Hitabreytingarnar urðu svo miklar, það fór að rigna og aðstæður mjög slæmar. Nokkrir bílar lentu utan vegar en engin meiðsl urðu,“ segir hann í lokin.

 

Þættir