Hvort tveggja óleysanlegar ráðgátur

INNLENT  | 1. september | 10:45 
Nýjasta kvikmynd leikstjórans Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, Svar við bréfi Helgu, er aðlögun á skáldsögu eftir Bergsvein Birgisson. Skáldsaga Bergsveins er í raun eitt bréf bóndans Bjarna til ástkonu sinnar forðum daga en í kvikmyndinni gefst tækifæri til þess að láta önnur sjónarhorn lifna við.

Nýjasta kvikmynd leikstjórans Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, Svar við bréfi Helgu, er aðlögun á skáldsögu eftir Bergsvein Birgisson. 

Skáldsaga Bergsveins er í raun eitt bréf bóndans Bjarna til ástkonu sinnar forðum daga en í kvikmyndinni gefst tækifæri til þess að láta önnur sjónarhorn lifna við.

„Bókin er öll sögð frá sjónarhóli Bjarna og Helga og Unnur koma aðeins út úr svona minningaþoku. Mig langaði að taka þær út úr þokunni og sjá þær fyrir mér þannig að þetta yrði eins og samtal milli þeirra þriggja og þannig að maður myndi skilja allar hliðar,“ sagði leikstjórinn í viðtali í Dagmálum.

„Mér finnst manneskjan bara vera ráðgáta,“ segir Ása og bætir við að hún hafi gaman af því að velta fólkinu í kringum sig fyrir sér. 

„Ástin er líka ráðgáta. Og þetta eru hvort tveggja óleysanlegar ráðgátur.“ Sér þyki eitt það skemmtilegasta við starf sitt að kljást við þessar óleysanlegu gátur.

„Ég held að maður eigi ekkert að vera að reyna að leysa þær. En það er samt gaman að dvelja í þeim. Mér fannst Helga og Unnur vera smá ráðgátur, einhver völundarhús sem mig langaði að fara inn í en ekkert endilega komast á leiðarenda. Mig langaði að dvelja meira með þeim líka.“

Fólk hafi sterkar skoðanir

Skáldsaga Bergsveins, Svar við bréfi Helgu, hefur verið í uppáhaldi hjá mörgum og Ása segist hafa fundið fyrir því að fólk hafi haft sterkar skoðanir á því hvernig kvikmyndaaðlögunin ætti að vera. Hún hafi þó haldið fast í sína sýn. Þetta sé hennar eigið Svar við bréfi Helgu

„Mér finnst æðislegt að finna hvað fólk er spennt. Þetta er uppáhaldsbók margra og það langar að sjá hana á hvíta tjaldinu. Mér finnst ágætt að hugsa að myndin sé í samtali við bókina. Hún er aðlögun en hún er líka sjálfstætt verk. Og fólk skilur það.“

https://www.mbl.is/mogginn/dagmal/menning/231044/

 

Þættir