Varð hol að innan eftir föðurmissinn

INNLENT  | 27. september | 12:34 
„Hann veslast upp af þessum sjúkdómi. Þessi tími tætti allt niður sem ég nokkurn tímann stóð fyrir,“ segir Inga Kristjáns.

Ingibjörg Linnet Kristjánsdóttir, eða Inga Kristjáns, rit­höf­und­ur og stjórn­andi hlaðvarps­ins Ill­verk, opnaði sig um al­var­leg­an kvíða og þung­lyndi sem hún glímdi við í kjöl­far þess að faðir hennar greindist með illvígt krabbamein sem leiddi hann til dauða, í viðtali í Dag­mál­um í vik­unni. Hún hvet­ur fólk til að leita sér hjálp­ar sem fyrst við and­leg­um veik­ind­um en sjálf tók hún lang­an tíma í að stíga skrefið og fá hjálp. Hún reyndi að fylla holrúmið sem hún fann innra með sér með ýmsum öðrum leiðum, meðal annars með því að komast í besta form lífs síns. 

Setti sig í hetjugír

„Hann veslast upp af þessum sjúkdómi. Þessi tími tætti allt niður sem ég nokkurn tímann stóð fyrir. Þetta gerði mig bara hola að innan. Ég var bara ekki neitt. Ég vaknaði á daginn, gerði það sem ég þurfti að gera. Allt mitt, allir mínir draumar, allar mínar pælingar fóru bara til hliðar,“ lýsti Inga sem vildi vera til staðar fyrir móður sína, sem nú var ekkja og yngri bróður sinn. 

„Ég setti mig í hetjugír og hélt bara áfram og bældi niður allt sem ég var að upplifa í svona þrjú ár,“ sagði Inga sem gaf sér nánast engan tíma til að syrgja föður sinn.

„Ég hélt ég myndi upplifa hamingju ef ég liti vel út“

Hún leitaði í ýmsa þráhyggju á þessum tíma, meðal annars í mikla líkamsrækt og áherslu á útlit.

„Ég mætti [í ræktina] alla daga vikunnar klukkan sex, oft tvisvar í dag og komst í besta form lífs míns en ég var samt svo hol að innan og óhamingjusöm. Ég var bara ha? Ég hélt að ég myndi upplifa hamingju ef ég liti vel út,“ sagði Inga. 

„Þú ert ekkert ef hausinn er ekki í lagi“

 „Þá var það náttúrlega bara hausinn. Ég fattaði að ég er ekkert búin að vinna í mér. Þótt ég sé búin að vinna í líkamanum, þótt ég sé búin að vera dugleg að vinna, safna pening og gera alls konar þá var ég ekki búin að næra mig – sem er svo mikilvægt. Þú ert ekkert ef hausinn er ekki í lagi. Þá leitaði ég mér aðstoðar,“ sagði Inga sem var greind með geðhvarfasýki, þráhyggjuröskun, þunglyndi, kvíða og mikla áfallastreitu þegar hún gekk inn til sálfræðings sem hefur hjálpað henni að leysa úr öllum „stíflum“ lífsins, skilja það hver hún er og elta drauma sína. 

Viðtalið við Ingu má sjá í heild sinni með því að smella hér: 

https://www.mbl.is/mogginn/dagmal/daegurmal/232030/

Þættir