Gleymt myndband endurútgefið

FÓLKIÐ  | 2. nóvember | 15:44 
Apparat Organ Quartet, eða Orgelkvartettinn Apparat, fagnar um þessar mundir 20 ára afmæli fyrstu plötu sinnar, sem heitir eftir hljómsveitinni: Apparat Organ Quartet.

Apparat Organ Quartet, eða Orgelkvartettinn Apparat, fagnar um þessar mundir 20 ára afmæli fyrstu plötu sinnar, sem heitir eftir hljómsveitinni: Apparat Organ Quartet. Á dögunum fóru fram afmælistónleikar í Tjarnarbíói þar sem hljómsveitin flutti plötuna í heild sinni, tvisvar sinnum fyrir fullu húsi. Við undirbúning tónleikanna kom í ljós gleymt tónlistarmyndband við eitt af lögum plötunnar: Global Capital.

Í myndbandinu má sjá meðlimi Apparats, þá Hörð Bragason, Sighvat Ómar Kristinsson, Arnar Geir Ómarsson, Úlf Eldjárn og Jóhann Jóhannsson, bregða á leik ásamt leikaranum Tómasi Lemarquis og leikstjóra myndbandsins, Magnúsi Helgasyni, en myndbandið er allt unnið á 8mm filmu með svokallaðri stop-motion-tækni.

Í tilefni af stórafmælinu verður platan endurútgefin á vínil. Það er danska fyrirtækið Crunchy Frog sem stendur að útgáfunni. Platan er komin til landsins og verður fáanleg í 12 tónum, Smekkleysu og öllum betri plötubúðum, að því er kemur fram í tilkynningu.

Á morgun, fimmtudag, efnir hljómsveitin til útgáfupartís í húsakynnum Smekkleysu og STAK við Hverfisgötu. Þar verða upprunalegu málverkin af umslagi plötunnar til sýnis, en þau voru máluð af Markúsi Þór Andréssyni með olíu á striga. Einnig mun DJ Kevin Cole frá útvarpsstöðinni KEXP þeyta skífum og hægt verður að plötuna áritaða af hljómsveitarmeðlimum, sem munu jafnvel taka nokkur lög undir merkjum hliðarsjálfshljómsveitarinnar „Ananas!“ Gleðin stendur yfir frá klukkan 17-19.

Þættir