Skvettu svörtum vökva á frægt verk í Vínarborg

ERLENT  | 16. nóvember | 12:22 
Umhverfisverndarsinnar helltu svörtum vökva yfir málverk austurríska listmálarans Gustavs Klimts í Leopold-listasafninu í Vínarborg í dag.

Umhverfisverndarsinnar helltu svörtum vökva yfir málverk austurríska listmálarans Gustavs Klimts í Leopold-listasafninu í Vínarborg í dag. 

Um er að ræða meistarastykkið „Dauðinn og lífið“ og segir Klaus Pokorny talsmaður safnsins að verið sé að skoða hvort listaverkið hafi orðið fyrir skemmdum, en það er varið með gleri. 

Fram kemur í umfjöllun AFP að hópur þýskra og austurrískra aðgerðarsinna, sem kalla sig „Síðustu kynslóðina“, hafi lýst yfir ábyrgð í tísti sem þeir birtu á Twitter. 

Á ljósmyndum má sjá tvo menn hella svörtum olíukenndum vökva á verkið skömmu áður en þeir voru handteknir. Þeir komu til að mótmæla notkun á jarðefnaeldsneyti og sögðu að jörðin stefndi nú í hraðbyri í átt að „loftslagshelvíti“. 

 

Látið víða til skarar skríða

Í dag var ókeypis aðgangur að Leopold-safninu í boði austurríska olíu- og gasfyrirtækisins OMV. 

Undanfarnar vikur hafa aðgerðasinnar látið til skarar skríða með svipuðum hætti á listasöfnum víða um Evrópu í því skyni að mótmæla aðgerðaleysi í loftslagsmálum. 

Þeir hafa m.a. límt hendur sínar við verk Franciscos Goya í Madríd á Spáni, kastað súpu á verk eftir Vincent van Gogh í London og í Róm og klesst kartöflum á verk eftir Claude Monet.

Mörg af helstu listasöfnum heims sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í liðinni viku þar sem þau benda aðgerðasinnunum á að þeir vanmeti stórlega það tjón sem þeir geta valdið með athæfi sínu. 

Það voru forsvarsmenn Prado-safnsins í Madríd sem fóru fyrir því að yfirlýsingin var send, sem yfir 90 stjórnendur þekktra safna skrifuðu undir. Þar á meðal stjórnendur Guggenheim-safnsins í New York í Bandaríkjunum, Louvre í París í Frakklandi og Uffizi í Flórens á Ítalíu. 

Þættir