Ættingjar og aðstandendur farþega flugslysins í Nepal syrgðu í dag fyrir utan spítala í Pokhara-borg í vesturhluta landsins og biðu eftir því að fá lík ástvina sinna afhent.
Viðbragðsaðilar í Nepal héldu í morgun áfram leit sinni í braki flugvélar sem hrapaði með 72 manneskjur um borð í gærmorgun. Ekki er búist við því að neinn finnist á lífi úr því sem komið er, en 69 lík hafa fundist.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2023/01/16/engar_likur_a_thvi_ad_finna_nokkurn_a_lifi/
Flugvél Yeti Airlines, ATR, hrapaði ofan í gljúfur og við það kviknaði í henni er hún nálgaðist borgina Pokhara. Þetta er mannskæðasta flugslys Nepals frá árinu 1992, eða í um 30 ár.
Flugöryggi skortir í Nepal
Flugiðnaður í Nepal hefur verið í mikilli uppsveiflu síðustu ár með flutningi á fólki og vörum á svæði sem erfitt er að komast til ásamt því að ferja erlenda fjallgöngumenn.
Iðnaðurinn hefur fengið að líða fyrir vankanta í þjálfun á starfsfólki og skort á viðhaldi.
Evrópusambandið hefur bannað öllum flugvélum frá Nepal að fljúga innan lofthelgi sambandsins vegna öryggisástæðna. Stofnandi Yeti Airlines lést sjálfur í þyrluslysi árið 2019.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2023/01/15/ad_minnsta_kosti_67_fundist_latnir/