Settu heimsmet í nethraða

Tvær vísindastofnanir hafa sett nýtt heimsmet í nethraða en þær sendu gögn yfir Netið á hraða, sem jafngildir því að það tæki sjö sekúndur að hlaða niður kvikmynd á DVD sniði í fullri lengd af Netinu. Er þetta tvöfalt meiri hraði en áður hefur náðst.

Reutersfréttastofan hefur eftir Evrópsku kjarnorkurannsóknarstofnuninni, CERN, að um hefði verið að ræða gagnasendingu milli höfuðstöðva stofnunarinnar nálægt Genf í Sviss og höfuðstöðva Tæknistofnunar Kalíforníu, Caltech, í Bandaríkjunum, um 7000 km leið. Sagðist CERN hafa sent 1,1 terabæt af gögnum með 5,44 gígabita hraða á sekúndu til Calteck þann 1. október. Er þetta 20 þúsund meiri hraði en venjuleg breiðbandstenging gefur kost á.

mbl.is