Yfir milljón netsíður í safni Spurl.net

Fyrirtækið Spurl ehf., sem rekur netbókamerkjaþjónustuna spurl.net, segir að þúsundir netnotenda um allan heim hafi nú safnað vel á aðra milljón vefsíðna á netsvæðið. Yfir 11 þúsund manns skráð sig í þjónustuna. Vefsvæðið er nú aðgengilegt á íslensku.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir, að spurl.net sé ókeypis þjónusta þar sem netnotendur geyma áhugaverðar vefsíður sem þeir rekast á. Með einum smelli geymi notandinn þá vefsíðu sem hann er að skoða í safni sínu á Spurl.net. Notandinn getur svo nálgast þetta vefsíðusafn sitt í hvaða nettengdri tölvu sem er. Spurl.net geymi líka afrit af síðunni eins og hún var þegar hún var merkt og þannig glatist ekki upplýsingarnar þó að síðan hverfi af vefnum, eða henni breytt.

Fram kemur, að spurl.net hafi til þessa aðeins verið aðgengilegt á ensku en yfir 90% notenda þjónustunnar séu erlendis, þar af meirihlutinn í Bandaríkjunum. Þessa dagana sé verið að ganga frá þýðingum á fleiri tungumál þar á meðal íslensku.

Íslenska útgáfan af spurl.net

mbl.is