Íslensk þýðing á Office 2010 komin út

Reuters

Íslensk þýðing á Office 2010 skrifstofuhugbúnaðinum kemur út í dag og geta þeir sem þegar eiga Office 2010 nálgast hana sér að kostnaðarlausu á vefnum microsoft.is.

Fram kemur í tilkynningu frá Microsoft á Íslandi að Office 2010 hafi komið út á alþjóðavettvangi á fyrri hluta síðasta árs og íslenska þýðingin sé án efa kærkomin fyrir þá sem hafa vanist að nota íslenskar þýðingar Office-pakkans í gegnum tíðina og m.a. nýtt sér íslenska stafsetningarorðabók sem fylgi með þýðingunni. Með útgáfu íslenskrar þýðingar Office 2010 nú séu nánast allar helstu hugbúnaðarlausnir Microsoft fáanlegar á íslensku.

„Áratugur er nú liðinn frá því fyrsta íslenska þýðing Microsoft-hugbúnaðar var boðin hér á landi. Það var þýðing á stýrikerfinu Windows 98. Síðan þá hefur Microsoft þýtt flestar útgáfur Windows-stýrikerfisins, Office-skrifstofuhugbúnaðarins og helstu viðskiptalausna sinna á borð við Microsoft Dynamics NAV og AX, auk Windows Exchange-samskiptabúnaðarins og netþjónalausna. Á næstunni verður bætt við íslenskri þýðingu á Windows Live, sem inniheldur m.a. Hotmail-póstþjónustuna og MSN-spjallkerfið.

Í rannsókn sem Capacent Gallup hefur nýlega gert fyrir Microsoft Íslandi kemur fram að notkun á íslenskri þýðingu á Windows stýrikerfinu hefur aukist nokkuð í tölvum á vinnustöðum landsmanna á síðastliðnum tveimur árum. Árið 2008 var sams konar könnun gerð og sýnir samanburður milli kannananna að notkun íslenskunnar í stýrikerfum á vinnustöðum hefur farið úr 16% í 23% á þessu tímabili. Notkun íslenskrar útgáfu Windows á heimilum eykst lítillega, úr 22% í 23% en notkun íslenskrar þýðingar Windows-stýrikerfisins í skólum minnkar hins vegar milli mælinga, fer úr 16% í tæplega 12%,“ segir í tilkynningu.mbl.is