Meirihluti trúir á framhaldslíf

Málverk Michelangelos af sköpun Adams. 18% þátttakenda í könnuninni trúir …
Málverk Michelangelos af sköpun Adams. 18% þátttakenda í könnuninni trúir því að guðleg vera hafi skapað mannkynið.

Meirihluti, eða 51% þeirra sem tóku þátt í skoðanakönnun Reuters og Ipsos í 23 löndum, trúir því að til sé líf eftir þetta líf og einnig að til sé guðleg vera.  18% sögðust ekki trúa því að guðleg vera sé til og 17% sögðust ekki vera viss.

Hins vegar sögðust aðeins 18% trúa því að guðleg vera hafi skapað mannkynið. 41% sagðist trúa þróunarkenningunni en 31% sagðist ekki vita hverju ætti að trúa. Alls tóku 18.829 einstaklingar þátt í könnuninni.

„Þótt að svo virðist sem við lifum í veraldlegum heimi sýnir þessi könnun hve trúin er mikilvæg hjá mörgum," segir Bobby Duffy, framkvæmdastjóri Ipsos stofnunarinnar, við Reutersfréttastofuna.

Hann segir einnig áhugavert, að svo stór hluti þeirra, sem ekki trúir á guðlega veru eða framhaldslíf sé ekki viss um hvort andleg skýring sé á tilverunni og hvað gerist eftir dauðann. 

Hlutfall þeirra, sem trúir að til séu æðri máttarvöld, er hæst í Indónesíu, Tyrklandi og Brasilíu og 24% Indverja, 14% Kínverja og 10% Rússa trúa á marga guði.

En minnst er þessi trú meðal Vestur-Evrópubúa. Þannig sögðust nærri 40% Frakka ekki trúa á guð eða æðri máttarvöld og litlu færri í Svíþjóð, Belgíu og á Bretlandi.

Hlutfall þeirra, sem trúa að til sé framhaldslíf en hvorki himnaríki né helvíti, er hæst í Mexíkó, Rússlandi, Brasilíu, Indlandi, Kanada og Argentínu.  Hlutfall þeirra, sem trúa á endurholdgun var hæst í Ungverjalandi eða 13%.

Þá var trúin á guðlega sköpun sterkust í Suður-Afríku, Bandaríkjunum, Indónesíu, Suður-Kóreu og Brasilíu.

Frétt Reutersfréttastofunnar

mbl.is