Hægt að lækna bakverki með sýklalyfjum

Hugsanlegt er talið að lækna megi þráláta bakverki í 20-40% tilfella með sýklalyfjum í stað skurðaðgerða. Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Guardian að breskir skurðlæknar séu að endurskoða meðferð sjúklinga sem þjást af þrálátum verkjum í mjóbaki eftir að danskir vísindamenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að mörg slík tilfelli megi rekja til bakteríusýkingar.

Haft er eftir einum helsta mænuskurðlækni Breta, Peter Hamlyn, að um væri að ræða mestu uppgötvun á þessu sviði á þeim tíma sem hann hefði starfað sem skurðlæknir og að áhrif hennar á læknavísindin væri slík að það réttlætti Nóbelsverðlaun. Hann segir að umfang málsins sé mikið. Líklega nái uppgötvunin til helmings allra tilfella þar sem hingað til hafi verið beitt skurðaðgerðum.

Fram kemur í fréttinni að sérfræðingar hafi lengi vitað að sýkingar væru stundum ástæðan fyrir bakverkjum en talið var að um undantekningartilfelli væri að ræða. Uppgötvun vísindamannanna við Syddansk Universitet hafi hins vegar kollvarpað þeim hugmyndum.

Frétt Guardian

mbl.is