Google byrjar að mynda í Reykjavík

Tveir Google bílar munu keyra um landið næstu tvo mánuði. …
Tveir Google bílar munu keyra um landið næstu tvo mánuði. Því er um að gera að taka til í kringum húsið svo það líti vel út á kortum fyrirtækisins. Mynd/Sigurður Þór Helgason

Google tilkynnti í dag að til standi að aka um götur Íslands með það fyrir augum að bæta gæði Íslandskorta á Google Maps kortavefnum og safna myndum til notkunar í Street View þjónustunni vinsælu. Á morgun, 24. júlí, munu bílar á vegum Google hefja aksturinn og taka 360 gráðu víðmyndir (e. panorama) af Reykjavík, bæjum og þorpum og vegunum þar á milli. Þær verða nýttar á komandi mánuðum, fyrir Íslendinga, ferðamenn og netverja sem vilja kanna mögulega áfangastaði og kynnast landinu betur. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Mbl.is sagði frá því í síðustu viku að til stæði að fara í verkefnið.

 Street View er vinsæl þjónusta sem nær nú þegar til 50 landa víðs vegar um heiminn. Hún leyfir notendum að kanna heiminn í eigin tölvu og þræða sig í gegnum borgarhverfi með hjálp víðmynda af götunum. Þjónusta þessi er einnig í boði sem hluti af Google Earth og Google Maps for Mobile.

Byrjað í Reykjavík

 Aksturinn hefst í Reykjavík og nágrenni en svo verður haldið út á land og bæir og þorp mynduð með sama hætti. Gert er ráð fyrir að mynda eins mikið af vegakerfinu og hægt er næstu tvo mánuðina. Akstursáætlun ræðst þó af utanaðkomandi þáttum (veðri, lokunum vega, o.s.frv). Þess vegna munum við, um leið og akstur hefst, veita nákvæmari upplýsingar um hvar bílarnir eru - og almennar upplýsingar um Street View - á vefsíðunni  maps.google.is/streetview.

 Myndirnar sem safnast verða unnar með sérstökum hætti og þeim vandlega skeytt saman í víðmyndir. Þær verða eftir það aðgengilegar á Google Maps.

Í fréttatilkynningu segir að Google leggi sig mikið fram við að varðveita persónuupplýsingar en leyfa um leið öllum notendum að nýta sér þjónustuna. Google mun, líkt og með aðrar myndir í Street View, brengla þau svæði á myndum sem sýna andlit og bílnúmer áður en myndirnar eru birtar með það fyrir augum að vernda persónuupplýsingar. Þegar myndirnar hafa verið gerðar aðgengilegar stendur notendum til boða að senda beiðnir um að ákveðin svæði á mynd verði brengluð með því að smella á takka merktan ‘tilkynna vandamál’ í neðra horni myndar hægra megin. Þá birtist á skjánum stutt eyðublað þar sem hægt er að tilgreina nákvæmlega hvaða svæði er um að ræða.

Sjá frétt mbl.is: Já náði að vekja risann Google

mbl.is

Bloggað um fréttina