Jörðin hlýnar áfram

Ís á Norðurskautinu heldur áfram að bráðna vegna hnattrænnar hlýnunar.
Ís á Norðurskautinu heldur áfram að bráðna vegna hnattrænnar hlýnunar. AFP

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA og haf- og loftslagsstofnunin NOAA hafa nú staðfest að árið 2014 er heitasta ár frá því mælingar hófust árið 1880. Þróunin er í samræmi við þá hnattrænu hlýnun sem á sér stað á jörðinni. Níu af tíu heitustu árum sem mælingar ná til hafa orðið eftir árið 2000.

Frá árinu 1880 hefur meðalhiti við yfirborð jarðar hækkað um 0,8°C, aðallega vegna aukinnar losunar manna á gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið. Meirihluti þeirrar hlýnunar hefur átt sér stað á undanförnum þremur áratugum, að því er kemur fram í tilkynningu NASA.

Yfirborðshiti yfir sjó var rúmri hálfri gráðu yfir meðaltali 20. aldar og er það mesti meðalhiti eins árs sem mælst hefur. Meðalhiti við yfirborð lands var einni gráðu yfir meðaltali 20. aldar. Það er fjórða hæsta meðaltal sem mælst hefur.

„Þetta er nýjasta árið í röð hlýrra ára, í röð hlýrra áratuga. Þó að staða hvers árs geti verið háð óreiðukenndu veðurfari þá má rekja þróunina til lengri tíma til loftslagsbreytinga sem verða að mestu leyti vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum þessa stundina,“ segir Gavin Schimidt, framkvæmdastjóri Goddard-geimrannsóknastofnunar NASA í New York sem rannsakaði meðaltal yfirborðshita jarðarinnar.

Búast við sveiflum en almennri hlýnun

Þrátt fyrir að árið í fyrra sé það heitasta hingað til og það sé hluti af hnattrænni hlýnun til lengri tíma litið eiga vísindamenn von á að sveiflur verði á meðalhitastigi jarðarinnar á milli ára, meðal annars vegna veðurfyrirbæri eins og El niño. Slík veðrakerfi geta hækkað og lækkað hitastig í Kyrrahafi og er talið að það sé ástæðan fyrir því að kúrfa hlýnunar jarðar hafi flast út undanfarin fimmtán ár.

Hitastig á hverju svæði er háð meiri sveiflum í veðurfari en meðalhitastig jarðarinnar. Þannig voru hlutar miðvesturríkja og austurstrandar Bandaríkjanna óvenjukaldir í fyrra en í Alaska, Kaliforníu, Arizona og Nevada var árið í fyrra það heitasta í sögunni. Met voru einnig brotin í Rússlandi, hluta Suður-Ameríku, austur- og vesturströnd Ástralíu, Norður-Afríku og í mestallri Evrópu.

Hafís á Norðurskautinu hélt áfram að dragast saman. Útbreiðsla hans var sú sjötta minnsta á árinu af þeim 36 árum sem vísindamenn hafa mælingar yfir. Hafísinn við Suðurskautslandið er hins vegar áfram með mesta móti, annað árið í röð, skv. niðurstöðum NOAA.

Hér fyrir neðan má sjá myndskeið frá Goddard-geimrannsóknastofnun NASA um hitastig jarðar í fyrra.

Tilkynning NASA um meðalhita jarðarinnar árið 2014

mbl.is