Sólvirkni breytti ekki loftslagi

Sólin fer í gegnum sveiflur í sólblettavirkni á 10-12 árum. …
Sólin fer í gegnum sveiflur í sólblettavirkni á 10-12 árum. Í hámarkinu eykst útgeislun hennar örlítið og minnkar að sama skapi í lágmarkinu. Af Stjörnufræðivefnum

Engin marktæk aukning hefur orðið á virkni sólarinnar frá árinu 1700, öfugt við það sem áður hefur verið talið. Nýir útreikningar á fjölda sólbletta sýna fram á þetta. Erfitt er því að útskýra loftslagsbreytingar á jörðinni fyrr á öldum eða í dag með náttúrulegum sveiflum í virkni sólarinnar.

Fram að þessu hefur það verið nokkuð almenn skoðun vísindamanna að að meðalvirkni sólar hafi aukist síðastliðin 300 ár frá lokum tímabils sem hefur verið nefnt Mauder-lágmarkið. Það stóð yfir frá 1645 til 1715 en þá voru óvenjufáir sólblettir á sólinni.

Á sama tíma geisaði kuldaskeið í norðanverðri Evrópu, sem hófst þó mun fyrr og lauk mun seinna, sem stundum hefur verið nefnt litla-ísöldin. Sólvirknin hafi svo náð hámarki á síðari hluta 20. aldar, að því er kemur fram í frétt á Stjörnufræðivefnum.

Af þessum sökum hafa menn freistast til að álykta að sólin hafi leikið stórt hlutverk í þessum loftslagsbreytingum á síðasta árþúsundi. Einhverjir hafa jafnvel viljað skýra þær loftslagsbreytingar sem eiga sér stað á jörðinni í dag með sveiflum í sólvirkni þrátt fyrir að ljóst sé að meginorsök þeirra sé losun manna á gróðurhúsalofttegundum með brennslu jarðefnaeldsneytis.

Alvarleg villa í kvörðun sólblettatölu

Fjöldi sólbletta hefur verið notaður sem mælikvarði á virkni sólarinnar en hins vegar hefur verið misræmi milli tveggja aðferða sem notaðar hafa verið til að ákvarða hann. Aðferðirnar tvær, Wolf-sólblettatalan og sólblettahóptalan, gáfu til kynna talsvert ólíka sólvirkni fyrir árið 1885 og einnig í kringum árið 1945.

Ný og leiðrétt sólblettatala sem kynnt var á 29. aðalþingi Alþjóðasambands stjarnfræðinga í Honolulu á Havaí á dögunum kollvarpar fyrri hugmyndum um að meðalsólvirkni hafi færst í aukana á undanförnum öldum. Því er erfitt að útskýra loftslagsbreytingar í fortíð og nútíð með náttúrulegum sveiflum í sólvirkni.

Það sem leit út fyrir að vera aukning á virkni sólar milli 18. aldar og síðari hluta 20. aldar reyndist alvarleg villa í kvörðun sólblettahópatölunnar. Nú, þegar búið er að leiðrétta villuna, kemur í ljós að sólvirkni náði engu sérstöku hámarki undir lok 20. aldar. Þvert á móti hefur meðalvirkni sólar haldist tiltölulega stöðug frá 18. öld.

Fréttin á Stjörnufræðivefnum

Grein um sólbletti á Stjörnufræðivefnum

Frekari upplýsingar á vef Sunspot Index and Long-term Solar Observations

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert