Ekki lengur titringur í farsímum?

Bjartmar Alexandersson á UTmessunni.
Bjartmar Alexandersson á UTmessunni.

Ekki verður ekki hægt að framleiða LED-skjái og titringur í farsímum verður ekki mögulegur ef fram fer sem horfir. Þessu veldur ásókn í sjaldgæfa málma sem notaðir eru í farsíma og önnur snjalltæki, segir Bjartmar Alexandersson, framkvæmdastjóri Grænnar framtíðar.

Bjartmar fjallaði um framleiðslu raftækja og endurnýtingu þeirra á UTmessunni sem fram fer í Hörpu í dag. Segir hann að aukin notkun á afar sjaldgæfum málum í skjái og farsíma sé þess valdandi að þeir verði uppurnir eftir fáeina áratugi.

Erfiðara að ná málmum úr jörðu

„Ef fram fer sem horfir munu t.d. LED-skjáir hverfa af markaði og ekki verður heldur hægt að láta farsíma titra, þar sem þessar vörur nýta sér þessa sjaldgæfu málma. Við erum auðvitað að miða við núverandi framleiðslu og notkun, en sem dæmi þá eru framleiddir 1,2 milljarðar farsíma ár hvert og framleiðslan fer vaxandi."

Að sama skapi segir hann að málmar í slík tæki séu margir hverjir sjaldgæfir og að alltaf verði erfiðara að ná þeim úr jörðu.

„Nú er svo komið að það þarf orðið að grafa sig niður í sjávarborð til þess að finna þá, sem getur haft í för með sér slæmar afleiðingar fyrir umhverfið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina