Fundu 400 ára grænlandshákarl

Grænlandshákarlinn getur orðið allt að fimm metrar að lengd og …
Grænlandshákarlinn getur orðið allt að fimm metrar að lengd og orðið hundruð ára gamall. ljósmynd/Vísindavefurinn

Grænlandshákarl er langlífasta hryggdýr sem þekkt er á jörðinni, að sögn vísindamanna sem aldursgreindu tæplega þrjátíu dýr í Norður-Atlantshafi. Eitt kvendýrið er líklegast um 400 ára gamalt. Langlífi tegundarinnar gæti þýtt að hún sé enn að ná sér á strik eftir ofveiði sem átti sér stað fyrir heimsstyrjöldina síðari.

Vísindamennirnir notuðu geislakolsaðferðina til þess að aldursgreina 28 grænlandshákarla en flestir þeirra drápust eftir að hafa lent í netum fiskiskipa. Aðferðin gefur ekki nákvæman aldur en elsta dýrið sem þeir skoðuðu reyndist á bilinu 272 til 512 ára gamalt. Líklegast er hins vegar að hákarlinn sé um 400 ára gamall, fæddur á 17. öld.

Það þýðir að hákarlinn er langlífasta tegund hryggdýra sem vitað er um á jörðinni. Fyrri aldursforseti hryggdýra var talinn grænlandshvalurinn en vitað er að slík dýr hafi náð 211 ára aldri. Langlífasta dýrategundin er hins vegar skelfiskur sem gengur undir nafninu Ming. Hann náði 507 ára aldri, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Jafnvel á lægsta enda óvissunnar, 272 árum, jafnvel ef það er hámarksaldurinn, þá ætti hann er vera talinn langlífasta hryggdýrið,“ segir Julius Nielsen, sjávarlíffræðingur við Kaupmannahafnarháskóla sem leiddi rannsóknina um grænlandshákarlinn. Grein um hana birtist í vísindaritinu Science.

Öld í að unglingarnir verði kynferðislega virkir

Grænlandshákarlinn getur orðið allt að fimm metrar að lengd. Vísindamennirnir komust hins vegar að því að þeir vaxa aðeins um einn sentímetra á ári og ná ekki kynþroska fyrr en þeir eru um 150 ára gamlir.

Á Vísindavefnum kemur fram að grænlandshákarlinn finnst allt frá Svalbarða, Bjarnareyju og Hvítahafi í norðri, og suður með ströndum Noregs inn í Norðursjó. Hann er einnig að finna við norðanverðar Bretlandseyjar, Færeyjar og Ísland. 

Menn ofveiddu grænlandshákarlinn áður fyrr en þeir voru á höttunum eftir lýsi úr lifur dýranna sem notað var sem vélaolía á fyrri hluta 20. aldar þangað til gerviefni drógu úr eftirspurninni.

Nielsen segir að fá kynþroska kvendýr sé að finna í hafinu og þá sé einnig lítið um ungdýr.

„Svo virðist sem að flest dýrin séu undir fullorðinsaldri. Það er vit í því. Ef það hefur verið svona mikil ásókn í veiðar eru gömlu dýrin ekki lengur til staðar og það eru ekki það mörg sem fæða ný dýr,“ segir hann.

Enn er þó töluverður fjöldi „táninga“ en Nielsen segir að það taki þá um það bil öld að verða kynferðislega virka.

Frétt BBC um langlífi grænlandshákarlsins

mbl.is