Virknin ekki sú sem er lofuð

Neysla á efnasambandi unnu úr marijúanaplöntunni getur dregið úr ógleði ...
Neysla á efnasambandi unnu úr marijúanaplöntunni getur dregið úr ógleði og uppköstum hjá krabbameinssjúku fólki í lyfjameðferð. AFP

Ekki er hægt að leggja fullnægjandi sönnur á að marijúana geti haft jákvæð áhrif á alla þá sjúkdóma sem stuðningsmenn lögleiðingu kannabis halda fram og auglýst er, segir í niðurstöðu viðamikillar rannsóknar sem unnin var á vegum bandarískra stjórnvalda. Hið sama gildir um alla þá hættu sem aðrir segja að fylgi neyslu á kannabis. 

Rannsóknin leiðir aftur á móti í ljós að það er rétt að neysla á kannabis getur dregið úr ógleði og uppköstum þegar krabbameinssjúklingar eru í lyfjameðferð og eins getur efnið haft jákvæð áhrif á þá sem þjást af stöðugum verkjum og dregið úr krömpum hjá MS-sjúklingum.

Sean Hennessy, prófessor í faraldsfræðum við háskólann í Pennsylvaníu, sem er einn þeirra sextán prófessora sem stýrðu rannsókninni, segir að í flestum tilvikum sé það þannig að lækningamáttur plöntunnar er ekki sá sem fólk sækist eftir. Hún hafi engin áhrif á þá sjúkdóma sem fólk telji að hún veiti aðstoð við. 

Til að mynda hafi marijúana afar lítil eða engin áhrif þegar fólk sem er með HIV/Aids tekur efnið til þess að auka matarlyst og líkamsþyngd. Ekki heldur að hafa róandi áhrif á ungmenni sem eru með ADHD og flogaveiki.

Haft er eftir þeim prófessorum sem koma að rannsókninni að gríðarlegur fjöldi rannsókna hafi verið gerður á virkni og lækningarmátt kannabis og niðurstaðan í heildina á litið sé sú að ekki sé hægt að leggja fullnægjandi sönnur á virkni þess.

En það sem eftir stendur er að það eykur mjög hættuna á umferðarslysum ef fólk ekur undir áhrifum kannabis. Í ríkjum þar sem neysla marijúana hefur verið lögleidd benda vísbendingar til þess að börn séu meiri hættu á að neyta marijúana en þar sem efnið er ólöglegt. Jafnframt að kannabisneysla getur dregið úr námsgetu unglinga og haft neikvæð áhrif á þau félagslega.

Meiri hætta er á geðsjúkdómum hjá þeim neyta kannabisefna. Má þar nefna geðklofa, félagsfælni og þunglyndi. Þeir sem neyta marijúana að staðaldri eru líklegri til þess að vera í sjálfsvígshugleiðingum en aðrir og þeir sem eru með geðhvörf og neita kannabisefna nánast daglega sýna meiri sjúkdómseinkenni en aðrir.

Þeir sem reykja marijúana að staðaldri eru líklegri til þess ...
Þeir sem reykja marijúana að staðaldri eru líklegri til þess að vera oftar kvefaðir en aðrir og vera með krónískt bronkítis. AFP

Ekki eru sjáanleg tengsl á milli þess að reykja marijúana og krabbameins sem yfirleitt er tengt reykingum. Svo sem í höfði, hálsi og lungum. Hins vegar séu þeir sem reykja marijúana að staðaldri líklegri til þess að vera með krónískt bronkítis og kvef. 

Sannanir eru fyrir því að fólk sem neytir kannabis í töluverðu mæli verði fíklar og því yngri sem viðkomandi er þegar hann byrjar þá eru meiri líkur á að fólk ánetjist fíkninni.

Mjög afdráttarlausar sannanir eru fyrir því að efnasamband sem unnið er úr maríjúanaplöntunni (cannabinoids) geti komið að gagni við að draga úr ógleði og uppköstum þeirra sem eru í lyfjameðferð við krabbameini. 

Eins styðja gögn það að notkun kannabis við krónískum verkjum, einkum krömpum MS-sjúklinga, geti komið að gagni.

Heimilt er að nota marijúana í lækningarskyni í 29 ríkjum Bandaríkjanna og neysla marijúana er lögleg í átta ríkjum sem og í höfuðborginni Washington DC. Aftur á móti er marijúana ólöglegt eiturlyf í flestum ríkjum Bandaríkjanna en rannsóknir síðan árið 2014 sýna að í hverjum mánuði neyta 22,2 milljónir landsmanna marijúana. 

Frétt Guardian 

Fréttatilkynning um rannsóknina

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina