Steingervingar í Marokkó breyta sögu okkar

Franski fornmannfræðingurinn Jean-Jacques Hublin með afsteypu af hauskúpu eins Jebel ...
Franski fornmannfræðingurinn Jean-Jacques Hublin með afsteypu af hauskúpu eins Jebel Irhoud-mannanna AFP

Fornleifastofnun Marokkó tilkynnti í síðustu viku að elstu þekktu steingervingar af manninum Homo sapiens, hafi fundist í Jebel Irhoud í Marokkó. Áætlaður aldur þeirra er um 300.000 ára, sem er um 100.000 árum eldri en áður elstu þekktu leifar tegundarinnar. Fundur þessi þýðir að umrita þarf sögu uppruna mannkyns og bendir til þess að tegundin okkar hafi þróast á mörgum stöðum víðs vegar í Afríku.  

Þetta kemur fram í grein sem birtist á vef bandarísku dagblaðsins New York Times fyrr í vikunni. 

Jean-Jacques Hublin, vísindamaður við Max Planck-stofnunina í þróunarmannfræði í Leipzig í Þýskalandi og háskólanum College de France í París í Frakklandi, benti á að uppgötvunin þýði ekki endilega að Homo sapiens hafi orðið til í norðvesturhluta Afríku. „Ýmis gögn benda til þess Homo sapiens hafi náð formi nútímamannsins á fleiri en einum stað innan Afríku, sagði Hublin.

„Við þróuðumst ekki frá einni „vöggu mannkyns“ einhvers staðar í Austur-Afríku,“ sagði Philipp Gunz jafnframt, sem er einnig fornmannfræðingur við Max Planck stofnunina. „Við þróuðumst frekar í allri afrísku álfunni.“

Dr. Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunnar, segir fundinn vera áminningu um að gátan um uppruna mannsins sé enn óleyst. Jafnframt segir hún breytingar í kenningum fornleifafræði eðlilegar.

Hublin, Gunz og aðrir meðhöfundar rituðu um fundinn í tveimur greinum í vísindaritið Nature. Þar lýsa þeir höfuðkúpu, kjálka og tönnum mannanna ásamt steinverkfærum þeirra. 

Það er ekki ljóst hvenær Homo sapiens birtist nákvæmlega í þróun mannsins. Hublin heldur því fram að til sé fyrra þroskastig sem hafi leitt af sér það sem vísindateymi hans kynna nú með Jebel-mönnunum.

Jean-Jacques Hublin og Abdelouahed Ben-Ncer, frá fornleifastofnun Marokkó, með með ...
Jean-Jacques Hublin og Abdelouahed Ben-Ncer, frá fornleifastofnun Marokkó, með með afsteypu af hauskúpu frá Jebel Irhoud svæðinu. AFP


Saga sem gekk ekki upp 

Árið 2003 fundu vísindamenn á Herto-svæðinu í Eþíópíu höfuðkúpu sem talið er að sé á bilinu 160.000 og 154.000 ára gömul. Á öðru svæði, einnig innan Eþíópíu, á svæðinu Omo-Kibish, fundust svo brot af tveimur hauskúpum til viðbótar sem voru um 195.000 ára og voru á þeim tíma elstar sinnar tegundar.

Þessir fundir bentu til þess að tegund okkar hafi þróast á litlu svæði – mögulega í Eþíópíu, eða í Austur-Afríku. Vísindamenn töldu svo að tegundin hafi dreifst um álfuna mun síðar. Um það bil 70.000 árum síðar hafi að lokum fámennur hópur Afríkubúa lagt leið sína til annarra heimsálfa.

En fornmannfræðingar voru meðvitaðir um tilvist steingervinga sem fundust í öðrum hlutum Afríku, sem virtust ekki passa við þessa tilgátu. Árið 1961, grófu námuverkamenn á Jebel Irhoud-svæðinu, um 100 km vestur af borginni Marrakess í Marokkó, upp brot af hauskúpu.

Með grófri tækni mátu vísindamennirnir hauskúpuna vera 40.000 ára gamla. En árið 1980, leit fornmannfræðingurinn Hublin betur á eitt kjálkabeinanna. Tennurnar líktust að vissu leyti tönnum manna í dag en lögun þeirra var undarlega frumstæð. „Þetta gekk ekki upp,“ sagði Hublin.

Tinnusteinsblöðin „sögulegar klukkur“ 

Fram kemur á vefsíðu Max Planct-stofnunnar að Hublin og samstarfsmenn hans hafi unnið sig í gegnum lög af steinum í hlíð við eyðimörk Jebel Irhoud frá árinu 2004. Þeir hafa fundið mikið af steingervingum. Steingervingarnir eru taldir hafa verið fimm einstaklingar sem allir létust á svipuðum tíma. Jebel Irhoud var ef til vill hellir og veiðistaður mannanna. Þeir notuðu eld og verkfæri sem gerð voru úr tinnu.

Vísindamennirnir uppgötvuðu einnig tinnusteinsblöð í sama setlagi og hauskúpur mannanna. Forfeðurnir í Jebel Irhoud hafa líklega notað þau í ýmsum tilgangi. Meðal annars var tinnan fest á trésköft til að búa til spjót.

Sum þessara tinnublaða sýna merki þess að þau hafi verið brennd. Fólkið hefur líklega kveikt elda til að elda sér mat og hitað óvart ónýt blöð sem höfðu verið grafin áður í jörð. Þetta slys sögunnar gerði vísindamönnum kleift að nota tinnurnar sem „sögulegar klukkur“. Með því að reikna út hvenær blöðin voru brennd, áætluðu Hublin og samstarfsmenn hans að blöðin séu um u.þ.b. 300.000 ára. Hauskúpurnar hljóti síðan að hafa verið á sama aldri, þar sem þær voru á sama setlagi. 

Tinnan er einnig áhugaverð af annarri ástæðu. Vísindamenn ráku uppruna hennar til annars svæðis, um 20 kílómetra suður af Jebel Irhoud. Eldri Homo sapiens, vissu því hvernig átti að leita að og nýta auðlindir yfir langar vegalengdir. 

Það að mennirnir hafi fundist saman er einnig merkilegt. „Að endurstilla klukkuna á frumraun mannkynsins væri nægt afrek. En rannsóknin er einnig eftirtektarverð fyrir uppgötvun á fyrstu mönnum mannkynsins sem fundist nokkrir saman,“ sagði Marta Mirazon Lahr, fornmannfræðingur við Cambridge-háskóla. „Við höfum ekkert annað slíkt dæmi, svo að þetta er stórkostlegur fundur,“ segir hún. 

Mennirnir voru líkir nútímamanninum í útliti en heili þeirra var ...
Mennirnir voru líkir nútímamanninum í útliti en heili þeirra var frábrugðinn okkar í dag. Skjáskot/Youtube


Andlit sem þú gætir rekist á í dag

Steingervingarnir benda til þess að Homo sapiens hafi snemma haft andlit lík nútímamanninum, þótt heili þeirra hafi í grundvallaratriðum verið ólíkur okkar. „Í Jebel Irhoud-mönnunum höfum við, að hluta til, líffærafræði sem er mjög lík lifandi mönnum í dag. En aðrir hlutar þeirra sýna að langt þróunarferli er enn eftir, sérstaklega varðandi þróun heilans,“ sagði Hublin.

Jebel Irhoud-fólkið deildi ýmsum almennum sérkennum með núlifandi mönnum. Þau höfðu þunga brún, litlar hökur og flöt og breið andlit. Þegar á heildina er litið voru þau þó ekki svo frábrugðin fólki í dag.

„Andlit þeirra líkjast því sem þú gætir rekist á í neðanjarðarlestinni," segir Hublin.

Heilar íbúa Jebel Irhoud voru hins vegar minna líkir heilum nútímamanna. Þó þeir hafi verið stórir líkt og heili nútímamannsins, höfðu þeir ekki enn sérkennilega kringlótta lögun hans. Þeir voru í stað þess langir og lágir, eins og hjá fyrri hominins-öpum.

Gátan um uppruna mannsins enn óleyst

Dr. Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunnar, segir fundinn vera áminningu um að uppruni mannsins sé enn óljós. „Þetta sýnir einfaldlega hvað við eigum eftir að læra margt. Við erum ekki enn búin að leysa gátuna um uppruna mannsins!“  

Kristín segir að steingervingafundurinn vera mjög spennandi en eigi ekki að koma á óvart. „Fornleifafræði og steingervingafræði eru ekki svo gömul fög svo það er eðlilegt að kenningar breytist og það komi eitthvað allt annað í ljós.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

INTENSIVE ICELANDIC, ENGLISH, NORWEGIAN & DANISH f. foreigners - ÍSLENSKA f. útlendinga - ENSKA f. fullorðna - NORSKA
ÍSLENSKA, ENSKA, NORSKA, DANSKA I, II, III, IV, V, VI: 2019:SPRING/VORÖNN: ...
Kommóða
Til sölu 3ja skúffu kommoða,ljós viðarlit.. Mjög vel útlítandi..Verð kr 2000..S...
ALLT MILLI HIMINS OG JARÐAR !!!!!!!!!!
NOTAÐ&NÝTT er ný verslun á Skemmuvegi 6 á bak við BYKO. Mikið úrval af fallegum ...
Múrverk
Múrverk...