Loftlagsbreytingar farnar að hafa áhrif

AFP

Meðalhiti hefur hækkað óðfluga í Bandaríkjunum frá árinu 1980 og undanfarnir áratugir hafi verið þeir heitustu í landinu í 1500 ár. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu sem unnin er af vísindamönnum sem starfa fyrir bandarísk yfirvöld. Skýrslan hefur ekki verið birt opinberlega þar sem ríkisstjórn Donald Trump hefur ekki veitt samþykki sitt fyrir birtingu hennar en stofnanir sem eiga aðild að skýrslunni hafa frest til 18. ágúst til þess að afgreiða hana frá sér.

Samkvæmt skýrslunni sem er unnin af vísindamönnum sem starfa hjá 13 alríkisskrifstofum eru loftlagsbreytingar þegar farnar að hafa áhrif í Bandaríkjunum. Skýrslan gengur þvert á fullyrðingar Trump og ráðherra í ríkisstjórn hans um að óljóst sé hvort mannlegi þátturinn skipti máli varðandi loftlagsbreytingar og það sé takmarkað hvað hægt sé að gera til þess að koma í veg fyrir þær.

Í drögum skýrslunnar kemur fram að vísbendingar um loftlagsbreytingar megi finna allt frá gufuhvolfinu niður í dýpi sjávar. The New York Times hefur fengið afrit af skýrslunni og fjallar um hana líkt og fjölmargir aðrir bandarískir fjölmiðlar í gærkvöldi. 

Höfundar skýrslunnar vísa í þúsundir rannsókna sem unnar eru af tugum þúsunda vísindamanna sem hafa fylgst með loftlagsbreytingum á landi og í landrúmsloftinu. Margar þeirra bendi til þess að mannlegar gjörðir, sérstaklega losun gróðurhúsalofttegunda, beri ábyrgðina á nýlegum loftlagsbreytingum.

New York Times

Nýleg umfjöllun Guardian um áhrif loftlagsbreytinga 

Umfjöllun um grein í Lancet um áhrif loftlagsbreytinga í Evrópu

 

mbl.is

Bloggað um fréttina