Dó á pí-deginum

Fjölmargir minnast breska eðlisfræðingsins Stephen Hawking á samfélagsmiðlum en hann lést í nótt, 14. mars á pí-deginum svonefnda. En dag­setn­ing­in er víða skrifuð 3.14, sem er hlut­fallið milli um­máls hrings og þver­máls hans. 14. mars er einnig fæðingardagur Alberts Einstein. 

Ein þeirra sem minnast hans á Twitter er forsætisráðherra Bretlands, Theresa May. „Einn af mestu vísindamönnum sinnar kynslóðar,“ skrifar hún og að hann hafi veitt henni sem og öðrum innblástur með hugrekki sínu, kímnigáfu og staðfestu sinni. 

Á vef BBC er hægt að skoða ummæli fólks um þennan þekkta vísindamann sem lést í nótt.

Stephen Hawking er þekktasti vísindamaður Bretlands nútímans. Snillingur sem tileinkaði líf sitt því að upplýsa um leyndardóma alheimsins.

Hawking fæddist 8. janúar 1942, 300 árum nákvæmlega eftir andlát föður nútíma vísinda,  Galileo Galilei. Vegna dagsins sem þeir áttu sameiginlegan var hann ungur að árum þegar hann taldi örlög sín ráðin - vísindin áttu hug hans allan. En örlögin gripu inn með sinni hörðu krumlu. Á loka­ári sínu við háskólann í Oxford hafði Hawk­ing orðið var við skerta hreyfigetu og auk­inn klaufa­skap. Sjúk­dóm­ur­inn ágerðist uns að lok­um Hawk­ing leitaði til lækna árið 1963 og greind­ist með hreyfitauga­höml­un, öðru nafni ALS, árið 1963. Hann var þá 21 árs og sögðu læknar að hann ætti vart meira en tvö ár eftir. En raunin varð önnur þar sem hann lést 76 ára að aldri, 55 árum síðar. 

Mestan hluta ævinnar var hann í hjólastól en á Vísindavef Háskóla Íslands segir svo um ALS: „MND stendur fyrir Motor neuron disease, eða hreyfitaugungahrörnun. Til eru nokkrar tegundir af MND en algengasta form sjúkdómsins kallast Amyotrophic lateral sclerosis (ALS) eða blönduð hreyfitaugungahrörnun. Sjúkdómurinn felur í sér að hreyfitaugungar deyja af óþekktum orsökum og geta ekki lengur sent skilaboð til vöðvanna. Afleiðingarnar eru þær að styrkur vöðva minnkar, þeir rýrna og verða máttlausir.

Hjá 90-95% einstaklinga með MND/ALS er sjúkdómurinn ekki bundinn erfðum, og því ekki um að ræða önnur tilfelli í fjölskyldunni eða ættinni. Hjá 5-10% MND/ALS sjúklinga eru fleiri í fjölskyldunni með sjúkdóminn.“

Þar segir ennfremur að greiningin hafi verið mikið áfall fyrir Hawking sem kom vart nærri náminu um skeið, enda tók því varla að leggja út á erfiða braut rannsókna í eðlisfræði þegar honum var ekki hugað líf.

„Hann náði þó fótfestu á ný eftir tveggja ára rótleysi og hefur helgað sig fræðunum síðan. Afturhvarf sitt til lífs og starfa þakkar hann bæði því að veikindin ágerðust hægar en honum hafði verið spáð, og því að hann kynntist Jane Wilde sem var við tungumálanám í London. Þau giftu sig árið 1965 og eignuðust tvo syni og eina dóttur. Hawking og kona hans skildu árið 1990. Nokkru síðar hóf hann sambúð með hjúkrunarkonu sinni, Elaine Mason, og þau giftu sig árið 1995,“ segir á Vísindavef HÍ.

Árið 1974 varð hann einn sá yngsti sem er tekin inn í bresku vísindaakademíuna, Royal Society, en þá var hann 32 ára.

Árið 1979 var hann skipaður í Lúkasarembættið, sem er prófessorsstaða í stærðfræði við háskólann í Cambridge og nýtur mikillar virðingar. Meðal þeirra sem gegnt hafa embættinu er Isaac Newton. 

Hawking gerði einmitt tilraun með kenningar Newtons árið 2007 þegar hann flug í þyngd­ar­leysi í sam­tals fjór­ar mín­út­ur í flug­ferð í breyttri Boeing 727 þotu. Vél­inni var flogið í mikl­um dýf­um til að skapa þyngd­ar­leysi inni í henni. Með flugferðinni vildi hann sýna hvað hreyfihamlaðir væru færir um og eins til að hvetja til áhuga fólks á himingeimnum. Enda taldi hann mannkynið ekki eiga sér neina framtíð nema með því að fara út í geiminn. Hætta á að líf þurrkist út á jörðinni fari vaxandi til að mynda vegna hlýnunar jarðar eða einhverra farsótta.

Helsta fram­lag Hawk­ings var að sanna það að Mikli­hvell­ur hefði átt sér stað fyr­ir um 14 millj­örðum ára, auk þess sem eft­ir hann ligg­ur mikið af fræðum um svart­hol, til­vist þeirra og eðli. Hawk­ing hef­ur sett fram kenn­ing­ar um að svart­hol gefi frá sér geisl­un, sem aft­ur leiði til þess að líf­tími þeirra sé tak­markaður.

Hawk­ing er þó lík­lega þekkt­ast­ur fyr­ir fram­lag sitt til þess að gera vís­indi og heims­fræði aðgengi­leg al­menn­ingi. Árið 1988 skrifaði Hawk­ing bók­ina A Bri­ef History of Time, sem þýdd hef­ur verið á ís­lensku sem Saga tím­ans. Í bók­inni reyndi hann að út­skýra á aðgengi­leg­an hátt upp­haf al­heims­ins og sögu hans, allt frá Mikla­hvelli.

Bók­in varð fljótt að vin­sæl­ustu vís­inda­bók sem gef­in hef­ur verið út. Hún gerði Hawk­ing um­svifa­laust að heimsþekkt­um ein­stak­lingi og hef­ur hann síðan birst í fjölda sjón­varpsþátta, þar á meðal Star Trek, Simp­sons og The Big Bang Theory, ávallt sem hann sjálf­ur.

mbl.is
Múrverk
Múrverk...
INTENSIVE ICELANDIC, ENGLISH, NORWEGIAN & DANISH f. foreigners - ÍSLENSKA f.útl - ENSKA - NORSKA
ÍSLENSKA, ENSKA, NORSKA, DANSKA: I, II, III, IV, V, VI: 2018: AUTUMN/HAUST: ...
Hornborð til sölu ódýrt.
Hornborð 65x65 cm. Hæð 45 cm. Vel með farið kr. 900.- Er í Garðabæ s: 8691204...
KERRUR TIL AFGREIÐSLU SAMDÆGURS
Sterku HULCO fjölnotakerrurnar, myndir á bland.is og á Facebook = Magnus Elias /...