Hægt að draga úr hnetuofnæmi

Hnetur geta leynst víða.
Hnetur geta leynst víða. mbl.is/Golli

Hægt er að vinna bug á hnetuofnæmi með meðferð sem miðar að því að auka þol gagnvart hnetum. Þetta er niðurstaða stórrar alþjóðlegrar rannsóknar.

Tæplega fimm hundruð börn á aldrinum fjögurra ára til 17 ára tóku þátt í rannsókninni í Evrópu og Bandaríkjunum. Öll glímdu þau við alvarlegt hnetuofnæmi. En með því að innbyrða smáræði af hnetum á hverjum degi í heilt ár gátu tvö af hverjum þremur þolað að borða að minnsta kosti tvær jarðhnetur.

Fjallað var um rannsóknina í BBC Today í dag og rætt við Emily Pratt, sem er sex ára og glímdi við alvarlegt hnetuofnæmi. Hún segir þetta hafa breytt gríðarlegu miklu fyrir hana. 

„Áður gat ég aldrei borðað kökur í afmælisboðum en nú er það óhætt,“ segir Pratt en hún þolir að innbyrða allt að sjö hnetur í einu sem þýðir að hún getur borðað mat með tiltölulega  öruggum hætti þrátt fyrir að í honum finnist leifar af hnetum.

Mamma Emily, Sophie, segir að það hafi tekið verulega á þegar í ljós kom að dóttir þeirra væri með hnetuofnæmi. Enda hafi þau komist að því að það eru leifar af hnetum í alls konar mat - ekki síst í mat sem höfðar til barna, svo sem kökum, kexi og ís. 

Ofnæmið var mjög alvarlegt og jafnvel minnstu agnir gátu leitt til þess að hún sýndi harkaleg ofnæmisviðbrögð.

Rannsakendur segja að þetta geti skipt gríðarlegu máli enda hafi fjöldi barna sem greinst hefur með hnetuofnæmi meira en tvöfaldast á tveimur áratugum.

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir svo: Einkenni hnetuofnæmis geta verið allt frá því að vera saklaus kláði í munni til þess að valda ofnæmislosti sem er lífshættulegt ástand. Algengast er að viðkomandi fái húðútbrot (þinur). Þau lýsa sér þá annaðhvort sem ofsakláði eða að undirliggjandi exem versnar. Einnig geta komið fram meltingarfæraeinkenni og eru uppköst og niðurgangur algengust.

Ofnæmislost (e.anaphylaxis) einkennist af skyndilegum og lífshættulegum einkennum þar sem sjúklingur steypist út í þinum og bjúgur leggst á öndunarfæri og/eða meltingarfæri. Þannig getur bjúgur í koki leitt af sér köfnun og í berkjum til alvarlegra astmaeinkenna. Alvarlegasta form ofnæmislosts hefur einnig áhrif á hjarta- og æðakerfi og getur valdið lífshættulegu blóðþrýstingsfalli.

Hér er hægt að lesa nánar um hnetuofnæmi á Vísindavefnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert