Google segist hafa náð „skammtafræðilegum yfirburðum“

Google segir að Sycamore-örgjörvinn, sem sést hér á myndinni, hafi …
Google segir að Sycamore-örgjörvinn, sem sést hér á myndinni, hafi náð að framkvæma aðgerð á 200 sekúndum sem venjulegar ofurtölvur dagsins í dag væru tíu þúsund ár að framkvæma. AFP

Bandaríska tæknifyrirtækið Google segist hafa náð að framleiða örgjörva sem búi yfir „skammtafræðilegum yfirburðum“ (e. quantum supremacy). Greint er frá því í vísindatímaritinu Nature að Sycamore-örgjörvi fyrirtækisins hafi getað framkvæmt ákveðið verkefni á 200 sekúndum, sem tæki öflugustu ofurtölvur dagsins í dag 10.000 ár að framkvæma.

Þetta þykja nokkuð mikil tíðindi, enda myndi skammtatölvutækni bylta tölvuheiminum vegna þeirrar ótrúlegu reiknigetu sem skammtatölvur eiga að geta búið yfir.

Af Vísindavefnum: Hvernig er hugsanlegt að byggja tölvur á skammtafræðilegum vinnsluaðferðum?

BBC fjallar um málið og hefur eftir Jonahan Oppenheim, prófessor við UCL-háskóla, að örgjörvi Google sé tilkomumikið tæki og áfanginn sömuleiðis, en fyrirtækið sé þó enn áratugum frá skammtatölvu sem geti leyst vandamálin sem við höfum áhuga á.

Hann segir próf Google áhugavert, en það sé þó „hvergi nærri“ þeirri nákvæmni sem þyrfti að vera til staðar til þess að byggja mætti fullmótaða skammtatölvu.

Sérfræðingar IBM ekki sannfærðir

Rannsakendur hjá IBM, sem rétt eins og Google vinna að þróun skammtatölvutækni, setja mikil spurningarmerki við tölurnar sem starfsmenn Google halda fram í fræðigreininni í Nature. Segja þeir að venjulegar ofurtölvur, með réttum stillingum, gætu leyst prófið sem lagt var fyrir Google-örgjörvann á tveimur og hálfum sólarhring og með mun meiri nákvæmni. Það er raunar þeirra varfærnasta mat – þeir telja að leysa megi prófið á enn skemmri tíma.

Einnig sögðu þeir, í bloggfærslu á vef IBM, að setja mætti spurningarmerki við skilgreiningu Google á „skammtafræðilegum yfirburðum“. Hún gæti verið misvísandi, þar sem samkvæmt ströngustu skilgreiningum hefðu hinir skammtafræðilegu yfirburðir ekki náðst með prófi Google. Þá segjast þeir efast um að þessi skilgreining eigi rétt á sér yfir höfuð, þar sem skammtatölvur myndu aldrei hafa „yfirburði“ yfir hefðbundnar tölvur, heldur fremur starfa samhliða þeim, þar sem bæði kerfin hefðu sína einstöku styrkleika.

mbl.is